Hún hefur ákveðið að breyta hugsunum sínum og viðhorfum til að skapa sér nýtt og betra líf. María Albertsdóttir býr á áfangaheimili fyrir konur og vinnur ótrauð að því markmiði að búa sjálfstætt. Hún hefur farið á dýptina með aðstoð Grettistaks í Reykjavík og á sér ýmis framtíðarplön þótt hún einbeiti sér helst að því að taka hverjum degi eins og hann kemur.
María fæddist á Íslandi en foreldrar hennar fluttu til Danmerkur skömmu eftir fæðingu hennar. „Pabbi var í námi og mamma að vinna,“ segir hún. „Mamma segir að ég hafi verið rosalega þægilegt barn þar til ég byrjaði að grenja. Eftir það grenjaði ég bara. Ég svaf víst fyrstu tvö árin en uppgötvaði svo röddina mína. Pabbi og mamma skildu síðan og það var fyrsta áfallið. Ég og mamma fluttum til Íslands og mamma fór fljótlega í meðferð eftir það. Eldri bróðir minn varð eftir hjá pabba en þeir komu til Íslands ári seinna.
Þá var skilnaðurinn í gangi og ég valdi að búa hjá pabbi og bróðir minn hjá mömmu. Hún gifti sig aftur og eignaðist litla bróður minn. Ég var ellefu ára þegar von var á honum. Mamma fór til Spánar til að hvíla sig meðan hún var ófrísk og ég man að ég var mjög móðguð að hafa ekki fengið að fara með. Fannst ósanngjarnt að hún væri bara að sóla sig í útlöndum án mín. Hann fæddist svo í janúar og er yndislegur. Ég flutti til mömmu þegar ég byrjaði í menntaskóla en ég byrjaði að smakka áfengi tólf ára gömul.“
Ætlaði aldrei aftur heim
Það er ansi ungt. Hvernig stóð á því? „Það var fyrst og fremst félagsskapurinn sem ég var í,“ segir hún. „En eftir að ég flutti til mömmu stoppaði þetta. Mamma áttaði sig fljótt á því að ég væri ekki í góðum hópi. Ég féll á fyrsta eða öðru ári í MS og hún stakk upp á að ég færi út til Bandaríkjanna og starfaði sem au pair. Tilgangurinn var að koma mér út úr félagsskapnum og halda mér frá víni. Ég fór nítján ára og bjó þar í eitt ár. Það var mjög skemmtileg lífsreynsla. Þar mega ungmenni ekki drekka fyrr en tuttugu og eins árs en fjölskyldan sem ég var hjá átti vínbúð og ég komst í áfengi þar líka. Ég fór svo með danskri vinkonu minni í skemmtisiglingu til Bermúda. Um borð ríktu „international drinking laws“, en það þýðir að um leið og skipið er komið út á sjó mega átján ára og eldri kaupa vín og drekka um borð. Þetta var vikufyllerí og rosalega gaman.
Ég ætlaði aldrei að koma aftur heim til Íslands. Mér fannst Bandaríkin æði. En fljótlega eftir heimkomuna kynntist ég barnsföður mínum. Við byrjum að deita, keyptum okkur íbúð í Kópavogi og ég varð ólétt að eldri dóttur minni. Meðan ég gekk með hana fluttum við í Voga á Vatnsleysuströnd og keyptum okkur einbýlishús þar. Allan tímann sem ég bjó með honum var hann í neyslu. Ég gerði mitt besta til að fela ástandið út á við og var svolítið veik af meðvirkni á þessum tíma. Við eignuðust aðra dóttur og giftum okkur en skildum árið 2011. Hann fór í meðferð árið 2010. Ég þoldi hann ekki í neyslubindindi. En þá byrjaði neyslusaga mín. Ég hafði ekkert verið að fá mér öll þessi ár, var bara upptekin af því að vera mamma og passa upp á allt. Alkóhólistinn í mér sannfærði mig um að börnin mín ættu ekki skilið nema eitt foreldri sem væri ekki í neyslu.
Árið 2016 fékk ég flog fyrir framan dóttur mína. Hún hringdi á sjúkrabíl og ég var flutt upp á sjúkrahús. Þegar ég vaknaði stóðu þær báðar við endann á rúminu mínu og héldu að ég væri að deyja. Næstu daga gekkst ég undir alls konar rannsóknir til að ganga úr skugga um hvort ég væri flogaveik en það er ég ekki. Þetta hefur sennilega verið lyfjatengdur krampi. En á meðan á sjúkrahúsdvölinni stóð kom mamma til mín og spurði mig hvort ekki væri kominn tími til að ég færi að hugsa mín mál. Í kjölfarið tók ég ákvörðun um að fara inn á Vog við fyrsta tækifæri.“
„Það er svo vont að fara svona langt niður og þá datt ég oftast í það, þegar ég var í lægðunum.“
Var að brölta í tvö ár
Þetta haust fékk María inni á Vogi og fór þaðan á Vík. „Þegar ég kom út fór ég beint aftur að vinna, á næturvöktum á hóteli. Ég reyndi að fara inn í AA-samtökin í Keflavík en ég hafði svo ógeðslega miklar skoðanir á öllu hvað varðaði meðferðina og gat ekki látið af þeim. Ég náði þess vegna engum árangri. Næstu tvö ár var ég eitthvað að brölta. Í október 2018 fór ég í meðferð í Hlaðgerðarkoti. Ég kom þangað í október og tók þar sporin. Þar er veitt ótrúlega góð meðferð og eftir alla þá vinnu náði ég ári edrú. Síðan þá hef ég verið meira edrú en í því þótt það hafi verið nokkur bakslög. Ég áttaði mig hins vegar á því þegar ég kom út af Hlaðgerðarkoti að ég þyrfti meiri stuðning.“
Í framhaldi af því fékk María inni á áfangaheimilinu Dyngjunni og bjó þar í tæp tvö ár.
„Ég féll þrisvar á þeim tíma en það stóð stutt í hvert sinn. Engu að síður vildi ég tryggja mig og fór aftur inn í Hlaðgerðarkot árið 2021. Ég bjó áfram á Dyngjunni þar til síðastliðið sumar þegar ég flutti á áfangaheimili á Njálsgötu þar sem ég bý nú. Eftir stutt fall fór ég á Vog og Vík og í framhaldi af því byrjaði ég í Grettistaki, sem er endurhæfing. Núna hef ég náð tveimur árum edrú.“
Hvað heldur þú að hafi helst háð þér meðan þú stóðst í því sem þú lýsir sem brölti?
„Ég átti rosalega erfitt með að leggja skoðanir mínar á prógramminu til hliðar. En þegar maður er kominn í jafnmikla endurhæfingu og Grettistakið er fer maður að skoða sjálfan sig frá öllum hliðum. Allt er tekið fyrir: fjármál, heilsa, hitt kynið og allt þar á milli. Þetta er djúpvinna og ég vil meina að Grettistakið og það að búa á áfangaheimili hafi munað öllu fyrir mig.“
„Þegar ég vaknaði stóðu þær báðar við endann á rúminu mínu og héldu að ég væri að deyja.“
Niðursveiflurnar erfiðar
Maríu hafði oft verið sagt að hún væri örugglega með athyglisbrest en hún hefur aldrei fengið slíka greiningu. Hins vegar var henni bent á að líklega væri hún með undirliggjandi sjúkdóm.
„Já, eftir fallið 2021 fór ég á geðdeild en fékk ekki innlögn. Þar var ungur geðlæknir sem var nýbyrjaður og hann bauð mér að koma til sín á hverjum degi þar til ég kæmist inn á Vog. Ég gerði það og við spjölluðum saman um lífið og í fjórða skipti spurði hann: „Hefur einhverjum einhvern tíma dottið í hug að þú gætir verið bipolar?“ Ég sagði nei, ég hef verið sögð með ADHD en ekki þetta. Ég fékk í kjölfarið lyf sem við ákváðum að prófa og þau virka.“
Hvernig lýsti sér aðallega sú líðan sem hann taldi benda til að þú værir með þann sjúkdóm?
„Ég fer rosalega hátt upp og rosalega langt niður þess á milli. Það er svo vont að fara svona langt niður og þá datt ég oftast í það, þegar ég var í lægðunum. Ég gat verið hátt uppi í einhverja daga eða vikur en svo sveiflaðist ég langt niður. Ég er ekki með ADHD-greiningu en þetta lyf sem ég fékk við bipolar hjálpar líka við ADHD. Ég er ekki eins hvatvís, er rólegri öll og í meira jafnvægi.“
Nú ertu í endurhæfingu í Grettistaki. Hvenær lýkur henni? „Núna í desember en ég get fengið áframhaldandi stuðning af því að ég bý á áfangaheimili á vegum Grettistaks. Ég ætla að öllum líkindum að gera það vegna þess að mér finnst stuðningur góður,“ segir hún. „Að fara einu sinni í viku og hitta stuðningsaðila og gera alltaf það sama hentar mér vel.“
„Alkóhólistinn í mér sannfærði mig um að börnin mín ættu ekki skilið nema eitt foreldri sem væri ekki í neyslu.“
Þarf ekki að plana of mikið
María er í skóla en hefur ekki ákveðið hvað hún ætlar að gera í framtíðinni en hana langar að vinna á leikskóla aftur, enda mikil barnakerling.
„Ég stefni að því að klára stúdentspróf,“ segir hún. „Ég efast um að ég meiki að fara í fimm ára háskólanám.“
Grettistak snýst um alhliða endurhæfingu og uppbyggingu og þar er farið á dýptina segir þú.
„Já, maður fær stuðning í gegnum allt sem maður þarf að gera. Það er hugað að líkamanum líka og maður fær kort í ræktina og þar er æfingaplanið sniðið að hverjum og einum. Ég hef skoðað í Grettistakinu margt sem ég hafði aldrei kannað áður. Núna er ég með hjálp þeirra að leita að sálfræðingi en það hef ég ekki verið tilbúin að fara í fyrr en núna. Um leið og ég fann fyrir löngun til þess leitaði ég til þeirra og það var sjálfsagt að aðstoða mig.“
Hvað með stelpurnar þínar, eru þær ánægðar með mömmu sína?
„Já, þær eru það. Sú eldri er í sálfræðinámi í Háskólanum en sú yngri í læknanámi í Slóvakíu,“ segir María og stoltið leynir sér ekki. „Þær eru ótrúlega flottar og styðja mömmu sína.“
Ertu bjartsýn á framtíðina eða ertu kannski ekki að plana neitt langt fram í tímann?
„Já, og já,“ segir hún með áherslu. „Ég er að bíða eftir að fá félagslega íbúð en ég er ótrúlega ánægð á Njálsgötu. Þar er ég vel staðsett og leigan er lág. Það hentar mér líka mjög vel að búa með konum sem eru að gera það sama og ég. En ég finn að ég er komin á þann stað að tímabært er að taka næsta skref. Ég hef ekki verið í sjálfstæðri búsetu í þrjú og hálft ár og finn að það er rétt að prófa það, sérstaklega ef ég fæ áfram stuðninginn í Grettistaki. Þannig að það er svona planið.“
Og það er eins og það á að vera að sögn Maríu. Láta sig dreyma en taka því sem að höndum ber hverju sinni, einn dag í einu.
Comments