top of page

Smitrakningateymi í samstarfi við Kaffistofuna



Virkt berklasmit hefur greinst í tveimur einstaklingum er nýta sér þjónustu í gistiskýlum á vegum Reykjavíkurborgar. Þar sem berklar eru lögboðinn tilkynningarsjúkdómur þurfti tafarlaust að hefja smitrakningu en vegna þeirrar aðstöðu er þessi hópur fólks er í dugðu ekki hefðbundnar aðferðir við slíkt og erfitt að ná í þá sem þeir voru í tengslum við.

Þetta er hópur sem sjaldnast hefur aðgang að síma, er á stöðugu flakki yfir daginn og dvelur á ýmsum stöðum. Yfirvöld ákváðu því að hugsa út fyrir kassann og stofna sérstakt vettvangsteymi mannað fólki sem býr yfir faglegri þekkingu og reynslu af aðstæðum hópsins. Í teyminu eru Guðmundur Ingi Þóroddsson og Ingólfur Snær Víðisson frá félaginu Afstöðu, en það félag beitir sér fyrir bættum fangelsismálum og betrun,  hjúkrunarfræðingarnir Kristín Davíðsdóttir frá göngudeild smitsjúkdóma og Jónína Guðný Bogadóttir frá Frú Ragnheiði og einn notandi gistiskýla. Teymið vinnur í nánu samstarfi við heilbrigðisstarfsfólk göngudeildar smitsjúkdóma.

Verkefnið snýst ekki hvað síst um að tryggja daglega lyfjagjöf og meðferðareftirfylgni. Lyfjagjöf við berklum tekur langan tíma og henni þarf að fylgja nákvæmlega. Vinna teymisins gekk mjög vel og nú í byrjun árs var ákveðið að stækka hlutverk teymisins og fá það til að sinna smitrakningu í víðara samhengi. Í þeirri vinnu hefur teymið leitað eftir og verið í samvinnu við fjölda stofnana og úrræða sem sinna jaðarsettum einstaklingum, þar á meðal Kaffistofu Samhjálpar.

Starfsfólk Kaffistofu hefur góða reynslu af vinnu með hópnum og fagnar því að teknar hafi verið upp sveigjanlegar og mannúðlegar aðferðir við að nálgast þennan hóp og aðstoða þá sem þurfa læknishjálp. Við erum sannfærð um að starf af þessum toga muni reynast árangursríkt og verða hluti af þjónustu við gesti Kaffistofunnar í framtíðinni.

Opmerkingen


bottom of page