LANDLÆKNIR GERÐI ÚTTEKT Á STARFSEMI MEÐFERÐARHEIMILA Á LANDINU, Þ.M.T. HLAÐGERÐARKOTS.
Í kjölfar úttektarinnar bárust ábendingar frá embættinu um það sem betur mætti fara og var skipaður starfshópur um þær aðgerðir.
Þá var unnið að gæðahandbók fyrir Hlaðgerðarkot og gerð var þjónustukönnun meðal skjólstæðinga. Öll þessi vinna var orðin tímabær og til þess fallin að betrumbæta starfið í Hlaðgerðarkoti. Í nýrri úttekt embættisins, sem unnin var í byrjun árs 2017, er m.a. fjallað um þann árangur sem náðst hefur. Starfshópurinn mun engu að síður starfa áfram og vinna að enn frekari úrbótum á starfi Samhjálpar og Hlaðgerðarkots.
Eftir úttektina hafa töluverðar breytingar verið gerðar á meðferðarúrræðum Samhjálpar í Hlaðgerðarkoti. Þetta eru breytingar til hins betra að sögn fíkniráðgjafa hjá Samhjálp. Helstu breytingarnar fela í sér að afvötnun fer fram annars staðar, meðferðartíminn hefur verið lengdur úr sex vikum í þrjá mánuði. Þá kemur fólk oftast til innlagnar eftir afeitrun á Vogi eða á Landsspítalanum, þar sem einstaklingar eru undir læknisvakt allan sólarhringinn. Þá hefur betri tenging verið mynduð við þau úrræði sem eru í boði fyrir skjólstæðinga að meðferð lokinni.
Hallgrímur Þ. Gunnþórsson, fíkniráðgjafi hjá Samhjálp, segir í samtali við Samhjálparblaðið að hætt hafi verið með afeitrun þann 1. des 2016, en meðferðin lengd úr sex vikum í þrjá mánuði þann 1. mars sl. Hallgrímur er sjálfur óvirkur alkóhólisti eftir að hafa farið í gegnum meðferð í Hlaðgerðarkoti fyrir 18 árum, n.t.t. í júlí 1999. „Ég hef verið með annan fótinn í Samhjálp öll þessi ár og hjarta mitt slegið fyrir samtökin,“ segir Hallgrímur.
Áður en hann hóf störf hjá Samhjálp starfaði Hallgrímur við félagslega ráðgjöf hjá Reykjavíkurborg um fimm ára skeið, þar sem hann sinnti helst einstaklingum með vímuefna- eða geðrænan vanda. „Mitt starf fólst meðal annars í því að hjálpa einstaklingum með fíknivanda að komast í meðferð og eins einstaklingum sem voru að koma úr meðferð að finna hentug endurhæfingarúrræði til að ná tökum á lífi sínu á ný, komast á vinnumarkað o.s.frv. Þetta reynist mörgum erfitt, enda er margt sem á undan er gengið,“ segir Hallgrímur og bætir við að ýmis úrræði standi einstaklingum til boða í dag, t.d. Grettistak, svokölluð Karla - og Kvennasmiðja, Virk og margt fl.
„Ég varð fljótlega var við það í mínu starfi hjá Reykjavíkurborg að það vantar oft betri tengingu frá meðferðarúrræðum inn í önnur úrræði sem eru til staðar í samfélaginu,“ segir Hallgrímur. „Eftir fimm ár hjá borginni fannst mér freistandi að vinna sem fíkniráðgjafi, til að sjá hvort ég gæti gert meira gagn þar og lagt mitt af mörkum til að tengja þessi kerfi betur saman. Ég hafði ákveðnar hugmyndir um það og hvernig best væri að gera þetta. Áður fyrr voru of mörg dæmi um að fólk fór í sex vikna meðferð, fór síðan inn á áfangaheimili og byrjaði þá að panta sér tíma hjá félagsráðgjafa, þurfti jafnvel að bíða lengi eftir viðtölum hjá félagsráðgjafa o.s.frv. Þarna var mikil fallhætta. Nú reynum við að hefja þetta ferli á seinni stigum meðferðar, þannig að fólk hefur að einhverju að stefna og sé búið að gera sér ákveðnar hugmyndir um framtíðina. Slík nálgun auðveldar þannig einstaklingum að snúa aftur og fóta sig upp á nýtt í lífinu.“
AFEITRUN AÐEINS HLUTI MEÐFERÐAR
Sem fyrr segir var ákveðið hér að lengja meðferðina í Hlaðgerðarkoti úr sex vikum í þrjá mánuði. Þá kemur fólk oftast til innlagnar eftir afeitrun á Vogi eða á Landsspítalanum, þar sem einstaklingar eru undir læknisvakt allan sólarhringinn. Að sögn Hallgríms gengur þetta ferli vel fyrir sig og gæði meðferðarinnar eru mun meiri að hans mati.
„Hér er fólk ekki lyfjað fyrstu tíu dagana eins og áður var. Einstaklingarnir koma þá hingað inn í þokkalegu ástandi og það er hægt að byrja strax að hlúa að þeim og hvetja þá áfram og í framhaldinu á seinni stigum meðferðar að tengja þá inn í þá þjónustu og þau endurhæfingarúrræði sem eru til staðar í samfélaginu,“ segir Hallgrímur.
„Það hefur gengið mjög vel og það er mikilvægt að fólk fái tengingu og byrji jafnvel að mæta í frekari endurhæfingarúrræði áður en það útskrifast héðan. Við sjáum strax árangur af þessu og það eru margir sem eru byrjaðir að mæta í undirbúningshópa áður en þeir útskrifast úr meðferð héðan úr Hlaðgerðarkoti í dag. Það að hafa einstaklinga hér í misjöfnu ástandi þegar þeir komu inni gat líka haft truflandi áhrif á einstaklinga sem voru hér fyrir og komnir lengra í sinni meðferð. Andrúmsloftið á staðnum er líka miklu betra, það er miklu rólegra og fólk er að ná betri tökum á meðferðinni. Við höfum tekið tvær þjónustukannanir sem sýna okkur að fólki finnst meðferðin hafa orðið enn betri. Þeir sem hafa komið í meðferð fyrir breytingu og eftir segjast sjá mikinn mun.“
Samhjálp hefur í gegnum tíðina verið þekkt fyrir að sinna þeim allra veikustu í samfélaginu, einstaklingum sem allir aðrir eru búnir að afskrifa. Aðspurður segir Hallgrímur að það sé enn svo, en að sjúklingahópurinn nái í dag yfir alla aldurshópa. Þeir yngstu eru allt niður í 17 ára og koma fyrir tilstilli barnaverndaryfirvalda, en þeir elstu eru komnir á ellilífeyrisaldur.
„Það sem hefur breyst er að fólk kemur afeitrað inn í meðferðina þar sem sjúkrastofnanir eru að afeitra fólk fyrir okkur. Við erum í mjög góðu samstarfi við þær stofnanir og það kemur enginn hingað inn undir áhrifum. Það er mikilvægt að hafa í huga að afeitrunin er bara lítill angi meðferðarinnar og eftir hana tekur við heilmikið ferli sem mikilvægt er að vanda sig við. Við erum að auka gæði meðferðarinnar með því að gera þetta svona,“ segir Hallgrímur.
Þegar einstaklingur kemur inn í meðferð í Hlaðgerðarkoti fer fram svokallað greiningarviðtal. Þá er farið yfir sögu einstaklingsins s.s. fjölskyldusögu, neyslu- og meðferðarsögu, námssögu, atvinnusögu, búsetusögu, heilbrigðissögu og greiningar, hvort viðkomandi eigi yfir sér fangelsisdóma, hvernig viðkomandi hafi framfleytt sér sl. tvö ár, hvaða hugmyndir og væntingar viðkomandi hafi um framtíð sína, áhugamál og fleira.
„Við förum með þessu strax í ákveðna greiningarvinnu þannig að við fáum skýra mynd af því hvernig best sé að haga meðferðarsambandinu og hvert sé best að beina fólki,“ segir Hallgrímur. „Meðferðin er að þróast með aukinni fagmennsku. Þessar upplýsingar hjálpa öllum fagaðilum að meta hvern einstakling betur. Síðan hefur læknir aðgang að upplýsingum sem aðrir starfsmenn hafa ekki, en það er þá hægt að setja hlutina í betra samhengi og tryggir að allir starfsmenn séu á sömu blaðsíðunni.“
Hallgrímur rifjar upp að þegar hann fór sjálfur í meðferð í Hlaðgerðarkot fyrir 18 árum hafi meðferðin verið mikið byggð upp á trúarlegum grunni. Síðan þá hafa komið fram auknar kröfur frá yfirvöldum, t.d. heilbrigðisráðuneytinu og landlæknisembættinu, um faglegri vinnubrögð og aukna menntun starfsfólks.
„Breytt vinnubrögð og ráðningar starfsfólks með háskólamenntun eru því einnig hluti af því að standa undir þeim kröfum,“ segir Hallgrímur. „Í dag byggir meðferðarmódelið okkar m.a. á hugmyndafræði sem kennd er við Minnesota módelið, og kenningar Jellinek um þróun alkóhólisma og batalíkan Gorsky. Þá styðjumst við einnig við hugræna atferlismeðferð þar sem það á við, að ónefndu tólf spora kerfi AA samtakanna. Eigi fólk við áfalla eða misnotkunarvanda að stríða reynum við að útvega þeim tíma hjá viðeigandi sérfræðingum“ Aðspurður um trúarlega hlutann segir Hallgrímur að í tólf spora kerfi AA samtakanna sé talað um að til þess að ná bata þurfi einstaklingur að taka æðri mátt eða Guð inn í líf sitt. Það sé óbreytt þó meðferðin sjálf sé orðin faglegri en áður.
LANGUR FERILL
Hallgrímur segir starfsmenn Samhjálpar séu nú þegar farnir að sjá mikinn árangur af breyttum áherslum. Hann tekur dæmi um að um þessar mundir séu um 60 manns að byrja í undirbúningshópi Grettistaks (sem er 18 mánaða endurhæfingarúrræði fyrir einstaklinga sem hafa átt við vímuefnavanda að etja.
Þar af eru 12 einstaklingar sem eru að ljúka meðferð í Hlaðgerðarkoti, eða um fimmtungur alls hópsins, sem er mikil framför frá því sem áður var. Þá eru fleiri einstaklingar sem nú dvelja á áfangaheimilum Samhjálpar einnig virkir þátttakendur í Grettistaki og við það bætast nokkrir einstaklingar sem hafa enn ekki lokið meðferð í Hlaðgerðarkoti en hafa nú þegar sýnt það góðan árangur að þeir teljast hæfir til að stíga næstu skref og undirbúa að fara í þau endurhæfingarúrræði sem í boði eru.
„Þetta er þróunin og þetta er það módel sem við viljum vinna með. Það eru fleiri meðferðarstofnanir að stefna í sömu átt og það er mikið og gott samstarf á milli stofnana í dag,“ segir Hallgrímur. „Ég tek undir það sem Þórarinn Tyrfingsson hefur svo oft sagt, að það taki tvö ár að verða edrú. Þetta er það langur ferill að fólk þarf að vinna í öllum sínum málum. Það er ekki nóg að setja bara tappann í flöskuna. Alkóhólismi er þríþættur sjúkdómur. Hann er andlegur, líkamlegur og félagslegur, og það þarf að vinna í öllum þessum þáttum til að ná bata.“ Hallgrímur ítrekar þó að Samhjálp hafi í gegnum tíðina unnið gott og mikilvægt starf og sjúklingar og samfélagið notið góðs af því. „Við erum bara að bæta það sem gott er,“ segir Hallgrímur.
„Í raun erum við að gera meðferðina bæði betri og faglegri og við finnum að það er að virka. Það er ótrúlegasta fólk, fólk sem enginn hafði trú á, að ná bata, er komið í endurhæfingu og er að ná góðum tökum á lífinu. Fólk sem átti sér enga von. Það eru líka dæmi um að fólk treysti sér ekki til að fara út eftir þrjá mánuði; þá höfum við verið sveigjanleg með það að leyfa fólki að vera lengur ef við teljum einnig þörf á því. Flest þeirra endurhæfingarúrræða sem eru í boði, þau eru innan þessa tveggja ára ramma sem ég talaði um áðan. Það er oftast 18 mánaða úrræði og þriggja mánaða undirbúningsferli þar á undan. Þá eru flestir komnir í nám, starfsnám eða búnir að móta sér einhverja stefnu í lífinu. Það eru líka dæmi um fólk sem var statt á ákveðnum stað í námi þegar allt fór í rugl og endurhæfingarúrræðin hafa átt í samstarfi við skóla um að hjálpa fólki að taka upp þráðinn á ný.“
Fyrir þá sem ekki eiga í önnur hús að venda, býður Samhjálp upp á búsetu á áfangahúsinu Spori að lokinni meðferð. Viss skilyrði þarf þó að uppfylla til að komast þar að. Frekari upplýsingar varðandi áfangaheimilin er hægt að nálgast hjá Tryggva Magnússyni, umsjónarmanni áfangaheimila Samhjálpar í netfanginu afangaheimili@samhjalp.is
Comments