Samhjálp hefur frá stofnun reitt sig á stuðning og velvild almennings til að halda starfinu gangandi og samtökin njóta mikillar gæfu vegna þess hve fjölmargir vilja leggja starfseminni lið. Í þeim hópi eru Einar D. G. Gunnlaugsson og kona hans Þóra M. Sigurðardóttir. Þau eru miklir matgæðingar og margt annað til lista lagt en það kemur allt saman Kaffistofu Samhjálpar til góða.
Einar og Þóra hafa um árabil styrkt Kaffistofuna og það má nefna að þau gáfu fimm páskamáltíðir í ár. Þau búa í Hraunborgum í Grímsnesi en í Þjónustumiðstöðinni þar hafa þau sett upp markað á sumrin.
„Þar bjóðumm við upp á brauðmeti, niðursuðuvörur, prjónavörur og myndlist,“ segir Einar. „Þetta er allt heimalagað en við ræktum allt sjálf, konan prjónar og ég mála vatnslitamyndir. Við ákváðum að hluti af andvirði sölunnar muni renna til Kaffistofu Samhjálpar.“
Hvers vegna varð Kaffistofa Samhjálpar fyrir valinu þegar þið ákváðuð að styrkja góðgerðafélag?
„Við hjónin höfum alla tíð reynt að styrkja þau félög og samtök sem okkur hefur fundist vanta fjárhagslega aðstoð. En svo komst ég að því að vinur minn til margra ára Georg Viðar Björnsson hafði verið frumkvöðull að stofnun Samhjálpar árið 1971 eftir dvöl í Svíþjóð þar sem hann hafði farið í áfengis- og vímuefnameðferð hjá LP Stiftelsen.
Við hjónin höfum undanfarin ár stutt við starfið sem Kaffistofa Samhjálpar hefur staðið fyrir með einstaklega duglegu fólki. Við höfum keypt heita máltíð mánaðarlega, auk þess að færa þeim af og til ýmiskonar bakstur og safna fatnaði og færa þeim til dreifingar til skjólstæðinga sinna sem eru margir. Við höfum fylgst með starfsfólki Kaffistofunar með aðdáun.“
Sú vara sem þið seljið er hún alfarið heimatilbúin?
„Öll sú vara sem við bjóðum uppá á markaðnum í Þjónustumiðstöðinni í Hraunborgum er framleidd af okkur hjónunum. Þóra, konan mín, sér um allan bakstur, enda bakaradóttir einnig prjónar hún allar ullarvörurnar sem við seljum. Jafnframt því sjóðum við í sameiningu niður sultur, t.d. rabarbara-chutney og rabarbarasultu, en við ræktum rabarbarann sem við notum. Auk þess lögum við bláberjasultu og ég bý til BBQ-grillsósu og mála vatnslitamyndir af íslenskum fuglum og gömlum kirkjum. Ég framleiði einnig póstkort með myndunum mínum og kem fyrir upplýsingum á bakhlið kortsins um myndina sem er á framhliðinni. Þess má geta til gamans að myndirnar mínar munu verða til sölu á markaðinum í Þjónustumiðstöðinni í Hraunborgum, sumar í stærðinni A4 í ramma og mun hver mynd sem selst verða styrkur sem er að andvirði einnar heitrar máltíðar hjá Kaffistofu Samhjálpar.“
Hafa einhverjir fleiri ákveðið að leggja ykkur hjónunum lið?
„Þetta framtak okkar varðandi það að styrkja Kaffistofu Samhjálpar hefur vakið athygli nokkurra aðila sem hafa sýnt því áhuga á að stykja Kaffistofuna með ýmsum hætti.“
Þið hafið fengið inni í Þjónustumiðstöðinni í Hraunborgum. Hvernig kom það til?
„Þjónustumiðstöðin í Hraunborgum er í einkaeigu og rekin af Gunnari Birni Gunnarsyni, en hann hefur verið okkur einstakur stuðningsmaður í þessu verkefni, varðandi markaðsaðstöðu í miðstöðinni og ýmsu öðru. Segja má að Þjónustumiðstöðin í Hraunborgum sé í dag félagsaðstaða sumarhúsaeigenda í Hraunborgum og ekki síður allra þeirra gesta sem sækja staðinn heim á sumrin.“
„Við hjónin erum bæði komin á eftirlaunaldur og eftir að hafa heimsótt Hraunborgir nokkrum sinnum fyrir um 20 árum síðan, ákváðum við að byggja hér heilsársbústað sem við og gerðum og var hann tilbúinn 2007. Það má sannarlega segja að Hraunborgirnar séu algjör Paradís,“ segir Einar að lokum.
Markaðurinn í Þjónustumiðstöðinni í Hraunborgum verður opnaður formlega föstudaginn 17. maí og er opinn allar helgar til 1. september opnunartíminn er frá kl: 10:00 til kl: 16:00 og við hvetjum alla til að nota tækifærið í sumar og skella sér í bíltúr austur í Grímsnes, njóta náttúrufegurðarinnar og koma við hjá þeim hjónum og skoða vöruúrvalið á markaðnum.
Myndir Einars eru falleg gjafakort og gaman að færa vinum og kunningjum slíkt listaverk og ekki skemmir að menn eru að styrkja gott málefni í leiðinni. Á bakhlið hverrar myndar stendur eftirfarandi texti:
Ágæti viðskiptavinur
Með kaupum á þessari mynd, (sem er eftirprentun af vatnslitamynd á vatnslitapappír eftir Einar D. G. Gunnlaugsson), styrkir þú starfsemi Kaffistofu Samhjálpar, en andvirði myndarinnar rennur til kaupa á heitri máltíð fyrir skjólstæðinga Kaffistofunnar.
Fyrir hönd starfsfólks Kaffistofunnar færi ég þér þakkir fyrir stuðninginn Einar D. G. Gunnlaugsson
Sjá nánari upplýsingar um Kaffistofuna á þessum link.
Comments