top of page
Leyndarmálið var þung byrði að bera
Áttir þú eitthvert bakland, einhverja sem þú gast leitað til?
„Það var svo mikil skömm í lífi mínu að mig langaði ekki að leita til neins, vildi bara vera í friði því mér fannst enginn skilja mig. Foreldrar mínir eru báðir alkóhólistar og ég missti mömmu mína fyrir um það bil tíu árum. Pabbi minn er virkur alkóhólisti enn í dag og ég er alinn upp í mjög sjúku umhverfi,“ segir Þórir. „Mig vantaði væntumþykju, aðhald og umhyggju. Orsökin fyrir öllu saman var líka misnotkun sem ég varð fyrir í æsku og hélt ævinlega leyndri, fór ekki að vinna í því fyrr en 2021. Maður sem bjó í hverfinu mínu þóttist vera vinur minn og beitti mig ofbeldi. Ég fékk þau skilaboð að ég mætti ekki segja frá þessu og var fullur af sektarkennd og skömm. Það er ekki gott að ganga með það allt líf sitt að vera hræddur og reiður, geta ekki treyst neinum, og ég var rosalega einn. Þannig voru flest árin mín í neyslu nema kannski rétt fyrst. Þegar ég byrjaði að drekka var eins og það opnaðist einhver flóðgátt og ég losnaði við hömlurnar og gat farið að tala. Ég hugsaði eftir fyrsta vímugjafann minn: Þetta ætla ég að gera aftur. Ég fann fljótt minn vímugjafa, amfetamín, mér þótti gott að vera vakandi lengi. Þá gat ég talað og slegið frá mér ef þurfti en það fór mjög fljótt með mig á enn verri stað.“
Var edrú en ekki í bata og féll
Þórir á að baki tvær meðferðir og tvö tímabil edrúmennsku. Fyrra edrútímabilið var árið 2007, en þá fékk Þórir að búa í Ármúla hjá Baldri, sem hafði breytt húsnæði þar í athvarf fyrir fólk nýhætt í neyslu.
„Baldur var ótrúlega góður við mig og hans fjölskylda og hann kynnti mig fyrir Guði en ég náði einhvern veginn ekki utan um allt þetta góða, ég var að stíga upp úr svo miklu myrkri. Ég var edrú en ekki í bata,“ segir Þórir. „Ég var þurr en mér leið illa. Mig vantaði að sinna prógramminu, vera heiðarlegur. Ég var fullur af skömm, hræddur, fannst allir vera að dæma mig og ég alltaf vera skítugur. Bæði út af misnotkuninni sem ég varð fyrir og mínu fyrra líferni. Ég féll og við tóku þrjú hörmungarár. Fjölskyldan sneri baki við mér og ég fékk ekki að hitta barnið mitt. Ég var líkamlega talinn svo illa staddur að læknirinn minn setti mig á varanlega örorku og sagði að ég ætti ekki afturkvæmt á vinnumarkaðinn. Ég þvældist um, var stundum í einhverjum herbergjum, stundum hjá hinum og þessum og stundum á götunni.“
Að þessum hörmungarárum liðnum urðu tveir vendipunktar í lífi Þóris. Hann hitti mann sem hann kannaðist við í strætó á leið niðri í bæ. Hann var að kenna syni sínum á strætókerfið.
„Hann sá að ég var í hræðilegu ástandi bæði andlega og líkamlega og sagði við mig: „Þórir, það er til lausn á þessu. Ég er að vinna í Alanó-húsinu. Komdu á fund til mín. Þú getur alltaf komið til mín.“ Eftir nokkrar vikur fór ég á fund og verið var að selja lyklakippur með æðruleysisbæninni í anddyrinu og ég keypti eina. Hann tók á móti mér, faðmaði mig og sagði: „Ég er búinn að vera að bíða eftir þér.“ Hann bauð mig velkominn og ég bað hann að vera sponsorinn minn í kjölfarið. Pabbi minn bjó þá í Hveragerði og ég fékk að vera hjá honum í 2–3 vikur meðan ég tók erfiðasta hjallann í fráhvörfum. Ég svaf þar en tók strætó í bæinn á AA-fundi á hverjum degi. Edrúdagurinn minn er 17. september 2013.“
bottom of page
Comments