top of page

Uppgötva hæfileika sína í Hlaðgerðarkoti



Í Hlaðgerðarkoti opnaði nýlega tómstundaherbergi þar sem geymt er allt efni til handíða sem til er á heimilinu. Signý Guðbjartsdóttir forstöðukona fékk Önnu Valdísi Guðmundsdóttur tómstunda- og félagsmálafæðing  á endurhæfingarsviði Landspítalans í lið með sér við að skapa verkefni. Þangað er hægt að sækja efni til að prjóna, raða saman steinum og búa til myndir, púsla, taka í spil búa til eigin persónulegan fjölnotapoka og dunda sér við að lita myndir úr litabókum fyrir fullorðna. Hér ræður útsjónarsemi og hugmyndauðgi för því reynt er að finna leiðir til að gera eitthvað fallegt án þess að efni í það kosti mikið. Að hafa eitthvað skapandi við að vera veitir mikla fróun og það er einnig talsverð hugleiðsla fólgin í því að nota hendurnar í ánægjulegri vinnu. 

 

Einnig er einstaklega gleðilegt hve oft hefur myndast hópur fólks sem syngur og spilar saman í Hlaðgerðarkoti. Ef gítarspilari er í hópnum sem býr á heimilinu myndast iðulega mikil stemning þegar allir syngja saman og margir uppgötva þá sönghæfileika sína.

 

Lengi hefur verið stunduð matjurtaræktun í Hlaðgerðarkoti og Tryggvi K. Magnússon forstöðumaður áfangaheimila Samhjálpar hefur verið starfsfólki og heimilismönnum innan handar við þá iðju. Í fyrra var komið upp gróðurkössum þar sem meiri ræktun getur farið fram. Sú nýbreytni er spennandi viðbót við heimilishaldið og nýtt skref í átt að sjálfbærni í Hlaðgerðarkoti. Signý er sérlega ánægð með þessar viðbætur og segir: „Það er svo gefandi að sjá bogið fólk verða teinrétt, og upplitsdjarft. Við sjáum einstaklinga koma inn og oft er öll von úti, áhugamálin farin og þessi tómleiki og jafnvel myrkur í augunum en þau rísa upp og ljósið lifnar að nýju. Við viljum gefa skjólstæðingum okkar tækifæri á betra lifi á öllum sviðum lifsins því við erum öll jafn dýrmæt.“ 

 

 

Comments


bottom of page