top of page

Víst hefur umhverfi áhrif

Þunglyndi og bústaðir Á undanförnum árum hafa menn áttað sig á að ýmsir þættir í umhverfi fólks og aðstæðum eru líklegir til að ýta undir þunglyndi. Rannsóknir á sjúklingum á spítölum sýndu til að mynda að þeir sem voru í björtum herbergjum, umluktir hlýlegum litum og fallegri list, náðu skjótar bata en hinir. Hið sama gilti um hjúkrunar- og dvalarheimili; því heimilislegri og notalegri sem staðirnir voru, því betur leið þeim sem þar dvöldu. Á hinn bóginn voru þunglyndi og alvarlegir líkamlegir heilsubrestir mun algengari meðal fólks sem bjó í stórum íbúðasamstæðum þar sem ekkert gladdi augað eða veitti hvíld frá endalausri grárri steinsteypu. Í arkitektúr gleðja bogalínur, skraut eða uppbrot frá kassalaga einföldum veggjum augu fólks og eru meðal þess sem vekja vellíðan. Garðar inni á milli eða í miðju blokkahverfa geta veitt íbúum ánægju og skapað tækifæri til að mynda félagsleg tengsl ef þeir eru rétt hannaðir. Þá þykja litlir blettir með bekkjum eða annarri aðstöðu til að setjast og njóta áhrifaríkastir. Til að bregðast við þessu hafa sprottið upp hreyfingar sjálfboðaliða um allan heim, fólk sem fer inn á vanrækta og yfirgefna bletti í borgum og plantar þar blómum og jurtum og skapar vinalegar vinjar í borgarlandslaginu. Stundum hefur einn slíkur staður orðið kveikja að viðsnúningi í glæpatíðni og skipt sköpum um líðan íbúa í heilu hverfi. Svokallaðir gróðurveggir eru líka að verða algengari í teikningum arkitekta, en þá er veggur eða hluti úr vegg í byggingu með innbyggðum pottum undir jarðveg og í þá plantað jurtum. Mosaveggurinn á Ráðhúsi Reykjavíkur væri dæmi um slíkan vegg þótt erlendis sé allt frá litlum blómum upp í nokkuð stór tré meðal þess sem þrífst á slíkum vegg. Hér er byggt á þeirri þekkingu að allar grænar jurtir skapi aukna velsæld hjá fólki og skapi ró. Ljóstillífun plantna hefur svo einnig jákvæð áhrif á loftslag og umhverfi.

Gleði og ánægja

Formin

Comments


bottom of page