Mohamad Raeesi flúði undan ógnarstjórn talíbana í Afganistan. Hann veit ekkert um afdrif sonar síns sem varð eftir en dóttir hans og eiginkona voru fluttar til Íslands á undan honum. Mohamad er líklega um sjötugt og gæti aldursins vegna verið heima og notið ævikvöldsins en hann kýs þess í stað að hjálpa til á Kaffistofu Samhjálpar.
Má bjóða þér að kynna þig?
„Ég er Mohamad Raeesi. Ég og konan mín búum hér ásamt dóttur minni. Ég á einnig son en ég veit ekki hvort hann lifir eða er dáinn vegna talíbananna. Við höfum spurst fyrir og reynt að grennslast fyrir um afdrif hans en ekki komist að neinu.“
Hvað ertu gamall?
„Ég er kominn á eftirlaunaaldur og hættur að vinna. Ég held að ég sé um sjötugt.“
Mohamad er fæddur 1950 og er því sjötíu og þriggja ára. Hversu lengi hefur þú verið á Íslandi?
„Ég sjálfur kom hingað frá Tehran árið 2019 en fjölskylda mín hefur hins vegar verið hér í rúmlega átta ár, býst ég við. Þær voru hér fyrir þegar ég kom. Ég var ekki í Afganistan þegar fjölskylda mín hélt af stað til Íslands.“
Hvað var til þess að þú valdir að koma til Íslands?
„Ég var í Íran og fjölskylda mín var hér. Ég komst að því gegnum Rauða krossinn að ég gæti sótt um að sameinast þeim. Fjölskylda mín var hér vegna þess glundroða sem skapaðist heima í Afganistan í kjölfar þess að talíbanarnir tóku völdin. Það voru mjög miklir erfiðleikar þar og þær urðu að fara.“
Hvað starfaðir þú við í Afganistan og Íran?
„Ég var í eigin rekstri í Afganistan en í Íran var ég verkamaður. Ég vann hvert það starf sem bauðst og var handhægt að vinna.“
Hvað varð til þess að þú bauðst þig fram í sjálfboðavinnu á Kaffistofa Samhjálpar?
„Félagsþjónustan kynnti mér þennan stað. Kona sem starfar þar, hún heitir Birgitta, bauð mér að vinna á Kaffistofunni. Ég bað um starf sem hentaði mér. Ég er sykursjúkur og vegna þess að það veldur mér streitu að sitja bara heima töldu þau að ég væri betur kominn í vinnu. Síðan sendi mér einhver skilaboð þess efnis að ég mætti koma og byrja að vinna á Kaffistofunni.“
Hversu lengi hefur þú unnið fyrir Kaffistofuna og hvernig líkar þér starfið?
„Ég býst við að það séu um það bil þrjú ár,“ segir Mohamad. „Leyfðu mér að kíkja aðeins á símann minn. Já, um það bil þrjú ár.“
Hvernig gengur þér að aðlagast íslensku samfélagi?
„Ég er orðinn vanur þessum stað. Ég er nálægt fjölskyldunni. Eina vandamálið er að það er svolítið kalt hérna. Ég lærði íslensku í sex mánuði og mér gekk vel. Ég tók virkilegum framförum en þá báðu þeir mig að borga fyrir tímana. En þar sem það er mjög dýrt að búa á Íslandi og öll launin fara í leigu gat ég ekki haldið áfram að læra.“
Heldur þú að þú munir búa áfram á Íslandi í framtíðinni?
„Hvert annað gæti ég svo sem farið. Við eigum ekki möguleika á að fara neitt annað.“
Hvernig myndir þú vilja sjá líf þitt hér þróast?
„Við eigum erfitt fjárhagslega. Ég fór á Vinnumálastofnun og spurðist fyrir og þeir sögðu að þar sem ég væri sjálfboðaliði á Kaffistofunni ætti ég að kanna hvort þau vildu ráða mig. Ég þekki mig orðið vel hér á Kaffistofunni og veit hvað vantar og hvað þarf að gera hér. Mér er ekki vel við að skipta um vinnustaði og mér líkar vel hérna.“
Hefur þú einhver skilaboð eða góð ráð til Íslendinga um hvernig best væri að taka á móti fólki sem flytur hingað?
„Íslendingar eru gott fólk. Þeir eru mjög þolinmóðir og tilbúnir að fyrirgefa.“
Þetta verða lokaorð Mohamads, enda þarf að hann snúa sér að því að skammta á diska og aðstoða þá sem leita á Kaffistofu Samhjálpar. Þar er oft mikið fjör því um það bil 350 máltíðir eru snæddar þar dag hvern og hver sem þangað leitar fer út saddur og ögn ríkari af hlýju og umhyggju.
Comments