
Maya Andrea L. Jules er dansari er mjög skapandi manneskja. Hún hefur stundað nám í myndlist og raftónlist og var að klára menntastoðir í Mími. Hún ætlar í Myndlistaskólann í Reykjavík í haust og stefnir á að læra arkitektúr í Listaháskóla Íslands. En áður en af því verður ætlar hún að hlaupa til styrktar Samhjálp í Reykjavíkurmaraþoninu í ár. Hún byrjaði að hlaupa eftir að hún hætti að reykja og hlaupin hjálpuðu henni að halda reykingabindindið. Í ár ætlar hún að hlaupa sitt fyrsta maraþon fyrir Samhjálp.
Hvers vegna valdir þú að styrkja Samhjálp í Reykjavíkurmaraþoninu í ár?
„Ég hef sjálf reynslu af fíknisjúkdómnum og finnst Samhjálp vinna frábært starf,“ segir hún. „Það eru samtök eins og þessi sem hafa hjálpað mér að komast á þann stað sem ég er á í dag. Auk þess er það svo að þegar maður velur góðgerðarmál til að styrkja þá vill maður helst að það sé eitthvað sem maður tengir við eða hefur reynslu af.“
Ertu búin að hlaupa lengi?
„Ég byrjaði að hlaupa árið 2022, sama dag og ég hætti fyrst að reykja. Svo einhvern veginn þróaðist þetta þannig að þolið jókst og jókst, þannig viðhélt ég því að byrja ekki aftur að reykja. Vildi ekki skemma árangurinn.“

Hvað ætlar þú að hlaupa langt?
„Ég hleyp mitt fyrsta heila maraþon í ár, 42.2 km,“ segir Maya stolt.
Ertu ánægð með viðtökurnar fram að þessu?
„Já, mér sýnist fólk vilja heita á mig. Þeir sem hafa gert það nú þegar virðast ánægðir með málstaðinn sem ég valdi. Svo vita margir sem standa mér næst að ég er í bata frá alkóhólisma og vilja styðja mig eða samskonar starf og það sem hjálpaði mér til bata. Vona að ég nái að safna jafn miklu, ef ekki meira en í fyrra. Þá hljóp ég fyrir Það er Von, held að 200.000 kr. hafi safnast,“ segir hún að lokum og við hvetjum alla til að styrkja þessa mögnuðu ungu konu alla leið í mark í sínu fyrsta heila maraþoni.
Comentários