top of page

Elsta meðferðarheimili landsins



Hlaðgerðarkot í Mosfellsdal er elsta starfandi meðferðarheimili landsins. Það var formlega vígt 6. júlí 1974 og í fyrstu voru þar fjórtán manns í einu en í dag rúmar Hlaðgerðarkot um þrjátíu einstaklinga í meðferð. Á síðastliðnum fimmtíu árum hafa þúsundir einstaklinga notið þar stuðnings og náð góðum bata. Andrúmsloft í Hlaðgerðarkoti er einstakt og hverjum og einum mætt af virðingu og hlýju til að gefa nýja von og afl til að byggja sig upp.

 

Saga Hlaðgerðarkots er merkileg og sýnir hve mikils virði samhjálp, samlíðan og skilningur er öllum er glíma við vímefnaröskun. Árið 1972 kom frá Svíþjóð ungur maður, Georg Viðar Björnsson, en hann hafði komist í samband við Lewi Pethrus stiftelse í Stokkhólmi. Upplifði hann þar sitt afturhvarf og frelsaðist.

 

Knúinn áfram af hugsjónum og þakklæti fyrir sína upplifun kom hann á fót vísi að hjálparstarfi í bílskúr inni á Sogavegi og í Citroen-bíl sem hann átti. Jafnframt hófst ný umræða í kringum þá er glíma við fíknivanda og samfélagið tók að þokast í átt til skilnings á sjúkdómum af þessum toga. Starf Georgs Viðars var mótað eftir starfi L.P. stofnunarinnar í Svíþjóð og var byggt á trú.

 

Afmælisgjafirnar grunnur að góðgerðastarfi

 

Þann 31. janúar Árið 1973 varð forstöðumaður Hvítasunnukirkjunnar Fíladelfíu, Einar J. Gíslason, fimmtugur. Hann ákvað að afþakka allar persónulegar gjafir og biðja þá sem vildu gleðja hann á afmælisdaginn að gefa peninga til stofnunnar nýrra hjálparsamtaka. Á hátíðarsamkomu, honum til heiðurs, söfnuðust 122.000 krónur og á sama tíma var Samhjálp formlega stofnsett. Í mars þetta sama ár var upphæðin komin í 400.000 krónur og hafist var handa við að leita að hentugu húsnæði fyrir meðferðarheimili. Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur átti húsið Hlaðgerðarkot í Mosfellsdal og þegar það var sett í sölu setti nefndin það skilyrði að það yrði aðeins selt aðilum er hygðust reka þar góðgerðarstarfsemi. Afmælisgjöf Einars J. nægði fyrir útborgun í Hlaðgerðarkoti og var það keypt enda þótti það henta einkar vel sem meðferðarheimili. Georg Viðar var ráðinn fyrsti forstöðumaður meðferðarheimilisins og starfaði til vorsins 1977. Á fyrsta starfsárinu var tekið á móti 70 manns.

 

Óli Ágústsson tók við þegar Georg dró sig í hlé og hann og Ásta Jónsdóttir kona hans settu mikinn svip á starfið og mótuðu það þau tuttugu og þrjú ár sem þau veittu því forstöðu. Húsið í Hlaðgerðarkoti varð fljótt of lítið og nýbygging var kostuð með sölu hljómplatna og bóka sem gengu mjög vel. Þar á meðal var bókin Krossinn og hnífsblaðið. Kvikmynd var gerð eftir bókinni og hún sýnd víða vakti mikla athygli á Samhjálp og starfinu. Þetta uppbyggingarstarf skilaði miklum árangri og Samhjálp festi sig í sessi.

 

Heiðar Guðnason og Sigrún Drífa Jónsdóttir tóku við af Óla og Ástu. Þau veittu Samhjálp fortstöðu í tólf ár og gerðu margar breytingar á starfseminni. Meðal annars var faglegur grunnur meðferðinnar í  Hlaðgerðarkoti styrktur. Margt duglegt, ósérhlífið og einstakt fólk hefur síðan komið að starfinu, styrkt það og eflt hver með sínum hætti, nefna má Guðrúnu Einarsdóttur. Hún setti mikinn svip á starfið og á stóran þátt í að sú ímynd skapaðist að Samhjálp starfaði af náungakærleika gagnvart skjólstæðingum sínum. 

 

Mikil uppbygging


Í gegnum árin hefur farið fram mikið uppbyggingarstarf í Hlaðgerðarkoti. Húsið var í upphafi 500 fermetrar og pláss fyrir 14 vistmenn. Árið 1992 var hafist handa við endurbyggingu gamla hússins og árið 2015 ráðist í nýbyggingu á lóðinni með aðstoð þjóðarinnar. Safnað var fyrir henni í beinni útsendingu á Stöð 2 og viðtökurnar urðu framar vonum. Ljóst var að meðal landsmanna ríkti skilningur á vanda þeirra sem glíma við fíkn og öllum í mun að skapa þeim fjölbreytt og vönduð meðferðarúrræði. Síðan þá hefur farið fram margvíslegt viðhald og endurbætur á bæði húsnæðinu og aðstöðunni. Samhjálp kostar það allt af sjálfsaflafé og hefur notið aðstoðar margra fyrirtækja og samtaka. Þar er fremst í flokki Oddfellow-reglan sem hefur stutt við uppbygginguna með ómetanlegum hætti. Hún hefur styrkt Samhjálp um álíka háa upphæð og safnaðist í landssöfnuninni.

 

Þess má einnig geta að Samhjálp hefur notið einstakrar fórnfýsi og velvildar frá einstaklingum sem hafa gefið vinnu sína. Magnús Sædal Svavarsson var byggingastjóri viðbyggingar og endurbóta á húsnæðinu eftir landssöfnunina og hans framlag var ómetanlegt. Einnig hafa ótal iðnaðarmenn, sem sumir hafa komið og unnið sjálfboðastarf um áratuga skeið, í hópi slíkra velunnara og án þeirra hefði aldrei tekist jafnvel til og raunin er með allan húsakost í Hlaðgerðarkoti. Margar konur hafa lagt starfinu lið með því prjóna jólagjafir og leggja lið á ýmsan hátt.

 

Einstaklingsmiðuð meðferð

 

Meðferð í Hlaðgerðarkoti er einstaklingsmiðuð. Þar starfar þverfaglegt teymi, læknis, hjúkrunarfræðings, félagsráðgjafa og áfengis- og fíkniráðgjafa ásamt því sem umsjónarmenn eru við störf allan sólahringinn og eru til stuðnings þeim sem eru í meðferð. Lengd meðferðar er sveigjanleg og endurskoðuð í hverju tilfelli fyrir sig.

 

Meðferðarstefna Hlaðgerðarkots byggir á að áfengis-og vímuefnaröskun eigi sér margvíslegr rætur m.a. samfélagslegar, félagslegar, sálfélagslegar, lífeðlisfræðilegar og læknisfræðilegar. Í Hlaðgerðarkoti er lögð áhersla á að greina og vinna með sálfélagslega, félagslega og samfélagslega þætti. Unnið er með æsku og uppeldi einstaklinga, áföll, félagsleg og andleg vandamál.


Meðferðarstarf í Hlaðgerðarkoti byggir á hugmyndum 12 spora kerfisins. Fræðsla, fyrirlestrar, hópastarf og einstaklingsviðtöl miðast öll við hjálp til sjálfshjálpar til að efla einstaklinginn og auka þekkingu hans á þeim vanda sem vímuefnafíkn er. Hluti af því er vinna með mikilvæga þætti svo sem samskipti, sjálfsmynd, lífsleikni og ábyrgð. Í meðferðarstarfinu er mikil áhersla lögð á sjálfsvinnu og þátttöku hvers eins.

 

Meðferðarheimilið er umkringt fallegri náttúru Mosfellsdals og þar gefst fólki tækifæri á að undirbúa sig vel undir þátttöku í samfélaginu að nýju. Árangur af starfinu hefur verið einstaklega góður og sveigjanlegur meðferðartími og aðstoð til að taka næstu skref gegna þar lykilhlutverki. Stöðugt er unnið að því að bæta aðstöðu og umhverfi í Hlaðgerðarkoti og þar munar mestu um velvild almennings sem í gegnum tíðina hefur styrkt starfið. Starfsfólk Samhjálpar horfir því bjartsýnt fram á veginn og til farsældar í starfi næstu fimmtíu árin.

 

 

Kommentare


bottom of page