top of page

Saga Samhjálpar

Forsöguna að starfi Samhjálpar má rekja til ársins 1971. Georg Viðar Björnsson fór í áfengis- og vímuefnameðferð hjá LP stiftelsen í Svíþjóð. Í kjölfar meðferðarinnar var hann gripinn löngun til að hjálpa gömlu drykkjufélögunum og heimsótti m.a Litla-Hraun, Gunnarsholt, Víðines og Skólavörðustíg 9. Georg vandi einnig komur sínar á togarahöfnina og um borð í skipin. Þar átti hann samtöl við fyrrum drykkjufélaga sína um lausnina og frelsið sem honum hafði hlotnast.

 

Georg hafði aðsetur í bílskúr við Sogaveg 158 en þangað leituðu menn skjóls og þáðu aðstoð í bágum kringumstæðum. Ekki voru allir hrifnir af því að fyrrum afbrota- og drykkjumaður fengi að hýsa marga menn á eigin ábyrgð og töldu að heilbrigðisyfirvöld ættu að taka í taumana.

Aðrir töldu að styrkja bæri starf Georgs. Í blaðagrein sem Svava Jakobsdóttir skrifaði og birtist í einu dagblaðanna, kom fram sú skoðun að það væri einkennilegt að menn fengju að liggja kaldir og svangir og jafnvel deyja í yfirgefnum bílum, undir bátum og á öðrum stöðum, en síðan fyndist sumum rangt þegar maður, sem sjálfur hefði verið óreglumaður en náð sér upp úr því, vildi gera gott fyrir meðbræður sína.

Meðferðarheimili

Hlaðgerðarkot í Mosfellsdal

Forstöðumaður Hvítasunnukirkjunnar Fíladelfíu, sem þá var Einar J. Gíslason, varð fimmtugur þann 31. jan. 1973. Hann vildi að afmælisgjafir hans rynnu til „Samhjálpar.“ Á hátíðarsamkomu, honum til heiðurs, söfnuðust 122.000 krónur. Þá var Samhjálp jafnframt stofnsett. Í mars sama ár var upphæðin komin í 400.000 krónur og hafist var handa við að leita að hentugu húsnæði fyrir meðferðarheimili, og fannst það í Mosfellsdal. Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur átti húsið Hlaðgerðarkot í Mosfellsdal sem þá var til sölu, en aðeins fyrir góðgerðarstarfsemi. Afmælisgjöf Einars J. nægði fyrir útborgun í Hlaðgerðarkoti og var það keypt enda þótti það henta einkar vel sem meðferðarheimili.

Þann 6. júlí 1974 var Hlaðgerðarkot vígt sem meðferðarheimili og voru 14 vistmenn fyrstu vikuna. Í dag rúmar Hlaðgerðarkot um 30 einstaklinga í meðferð.

Stjórnendaskipti urðu í maí 1977 og var þá Óli Ágústsson ráðinn forstöðumaður/framkvæmdastjóri Samhjálpar og gekk hann inn í það starf ásamt konu sinni Ástu Jónsdóttur. Óli gerðist fljótt umsvifamikill og stofnaði líknarsjóðinn „Samverjann“ haustið 1978. Tilgangur sjóðsins var að annast líknarmál og uppbyggingu starfsaðstöðu fyrir starfsemi Samhjálpar.

Umfangsmikil útgáfustarfsemi

Til að afla fjár fyrir sjóðinn var ráðist í útgáfu á fyrstu hljómplötu Samhjálpar sem kom út 1978. Það var platan Jesús lifir, með Fíladelfíukórnum í Reykjavík. Bókin Krossinn og hnífsblaðið eftir hinn bandaríska David Wilkerson, var gefin út í íslenskri þýðingu árið 1978 en hún hafði áður verið þýdd á 40 tungumál og selst í yfir 20 milljónum eintaka víða um heim.

Í grein Óla Ágústssonar sem birtist í 2. tbl. Samhjálparblaðsins árið 1998 í tilefni af 25 ára afmæli samtakanna, kemur fram að árunum 1978 til 1985 hafi Samhjálp gefið út fjórar hljómplötur og sjö bækur sem allar seldust mjög vel. Ágóði af plötu- og bókaútgáfunni rann óskiptur til uppbyggingar starfsemi Samhjálpar. Blaðaútgáfa Samhjálpar hófst svo árið 1983 og stendur enn.

Samhjálp mætir fleirum

Víðtæk starfsemi að Hverfisgötu 42

Skrifstofa Samhjálpar var opnuð árið 1978 að Hátúni 4a í Reykjavík. Fram að því hafði öll starfsemi Samhjálpar verið í Hlaðgerðarkoti. Stuttu síðar var Hverfisgata 44 tekin á leigu með leigumála til tveggja ára og samtímis fengust afnot af sal Söngskólans í bakhúsinu, sem áður hafði verið samkomusalur Fíladelfíu í rúm 24 ár, frá október 1937 til febrúar 1962.

Árið 1980 festi Samhjálp kaup á hluta hússins að Hverfisgötu 42. Fyrsta hæðin sem verið hafði verkstæði Sindra og hálf þriðja hæðin, alls um 440 fermetrar. Starf Samhjálpar óx og blómstraði enn frekar með félagsmiðstöð sem opnuð var þann 2. apríl 1983 undir nafninu Þríbúðir og var einnig til húsa að Hverfisgötu 42. Félagsmiðstöðin mætti þörfum fjölda fólks og var jafnan dagskrá þar fimm til sex daga vikunnar.

Kaffistofa Samhjálpar opnuð

Starfsemi Samhjálpar vex ásmegin

Kaffistofa Samhjálpar var fyrst opnuð árið 1981 í húsi gamla söngskólans sem var bakhús á milli húsanna nr. 42 og 44 við Hverfisgötu. Upphaflega var Kaffistofan opin hluta úr degi tvisvar í viku. Þar var í boði kaffi og meðlæti fyrir gesti sem gátu fengið sér sæti, lesið dagblöðin eða spjallað saman.

Starfsmaður lagði sig fram um að tengjast gestum kaffistofunnar. Urðu þau tengsl gjarnan til þess að viðkomandi tók hvatningu til að leita sér meðferðar til að reyna að breyta lífsformi sínu. (Samhjálparblaðið, 2. tbl. 1998, Ó.Á.)

Það var ljóst að þörfin fyrir kaffistofu var mikil og starfsemin því aukin þannig að opið var alla virka daga frá kl. 10-17. Einhverju síðar var prófað að bjóða heita súpu og brauð tvo daga vikunnar og reynslan sýndi fljótt að þörfin var mikil. Því var farið að bjóða súpu og/eða heitan mat fimm daga vikunnar.

Kaffistofan Borgartúni 1A

Kaffistofa Samhjálpar er fyrir fólk á jaðri samfélagsins og/eða fólk sem glímir við fátækt af mismunandi ástæðum og þá sem eru í neyð. Gestum kaffistofunnar hefur fjölgað undanfarin ár í kjölfar aukins fólksfjölda á Íslandi.

Þess ber að geta að Kaffistofa Samhjálpar í Borgartúni er opin alla daga ársins kl. 10-14 en þar er bæði morgunverður, kaffi og heitur matur daglega.

Fyrsta stoðbýli Samhjálpar

Stoðbýli Samhjálpar var opnað og var upphaflega á annarri hæð hússins að Hverfisgötu 42. Stoðbýlið varð fljótt fullnýtt en með aðkomu Félagsmálastofnunar tókst að stækka það og hýsa 14 einstaklinga á þremur hæðum hússins.

Samhjálp flytur

Húsnæðið að Hverfisgötu 42 var selt árið 2006 og nýtt húsnæði keypt að Stangarhyl 3 í Reykjavík. Þar voru höfuðstöðvar Samhjálpar, göngudeild, félagsstarf, samkomur, AA fundir, nytjamarkaður og símaver. Árið 2014 var húsnæðið að Stangarhyl selt og skrifstofuhúsnæði tekið á leigu í Hlíðasmára 14, í Kópavogi ásamt því sem nytjamarkaðurinn fluttist í Ármúla 11. Seinna fluttist skrifstofa Samhjálpar í Skútuvog 1g í Reykjavík. Þar eru í dag skrifstofur og símaver.

Áfanga- og stuðningsheimili

Íbúar áfangaheimilanna taka þátt í dagskrá sem felst meðal annars í morgunfundum, húsfundum og AA fundum. Íbúum bjóðast einnig einkaviðtöl eftir þörfum. 

Samhjálp rak áfangaheimilið Sporið við Vagnhöfða frá árinu 2009-2019. Þar voru 17 einstaklingsherbergi. Eftir að Sporinu var lokað, rak Samhjálp um tíma tvö kynjaskipt áfangaheimili fyrir fjóra einstaklinga.

Áfangaheimilið Brú var opnað að Höfðabakka 1 í maí 2006 en starfsemi lauk í desember 2023 þegar félagsbústaðir ákváðu að nýta fasteignina fyrir fyrir sína þjónustu. Þar voru 18 einstaklingsíbúðir. 

Stuðnings- og áfangaheimilið M18: Opnað í ágúst 2003 og er rekið í samvinnu við Félagsþjónustuna í Reykjavík. Það er heimili fyrir heimilislausa Reykvíkinga. Þar er pláss fyrir 8 karlmenn. Heimilið er nokkurskonar áfangaheimili en með miklum stuðningi. Markmið M18 er að styðja þá einstaklinga til bata sem ekki hafa náð bataferli eftir hefðbundnum meðferðarúrræðum. Eftir meðferð á M18 hafa margir náð góðri heilsu og eru færir um að leita sér að eigin húsnæði.

Stuðningsheimilið D27: Samhjálp tók við rekstri áfangaheimilisins að Dalbrekku 27 (Nýbýlavegi 30) fyrir velferðarsvið Kópavogsbæjar haustið 2017. Það er rekið eftir samskonar stefnu og M18.

Gistiskýlið

Samhjálp rak gistiskýlið til langs tíma en nú sér Velferðarsvið Reykjavíkur um reksturinn

Gistiskýlið var upphaflega í gamla farsóttarhúsinu við Spítalastíg sem byggt var árið 1884. Gistiskýlið flutti í hús við Lindargötu árið 2014. Samhjálp sá um reksturinn til margra ára en Velferðarsvið Reykjavíkur tók við keflinu árið 2015.

Skrifstofa Samhjálpar

Skrifstofa og úthringiver

Á skrifstofu Samhjálpar, Skútuvogi 1g í Reykjavík er haldið utan um meginstarfsemi Samhjálpar. Þar er úthringiver samtakanna og miðstöð fjáröflunar félagsins sem felst meðal annars í merkjasölu og viðburðum. Meðal verkefna er vinnsla Samhjálparblaðsins sem kemur út þrisvar sinnum á ári.

Markaður Samhjálpar 

Um árabil rak Samhjálp nytjamarkað þar sem allur ágóði markaðarins rann til starfsemi Samhjálpar,

markaður Samhjálpar var upphaflega til húsa í Stangarhyl þar sem starfsemi Samhjálpar var rekin um nokkura ára skeið. Seinna meir var markaðurinn fluttur í Ármúla 11 í Reykjavík

Markaður Samhjálpar var nú seinast til húsa í verslunarmiðstöðinni Hólagörðum í Lóuhólum en starfsemin lagðist af í lok árs 2023. 

Landssöfnun

Landssöfnun í sjónvarpi

Laugardagskvöldið 21. nóvember 2015 var fjögurra tíma útsending frá Hörpu sem Samhjálp stóð fyrir í samvinnu við Stöð 2. Þetta var sannkölluð tónlistarveisla og frábærar reynslusögur. Allir sem fram komu gáfu vinnu sína og söfnuðust á þessu kvöldi um 85 milljónir fyrir nýrri byggingu í Hlaðgerðarkoti, en elsta bygging meðferðarheimilisin var þá nánast ónýt. Framkvæmdir við nýbygginguna hófust vorið 2016 og lauk haustið 2019. Enn standa yfir endurbætur á elsta hluta Hlaðgerðarkots.

Stjórnendur Samhjálpar

Eftir tæplega aldarfjórðungs starf, þróun og uppbyggingu á starfsemi Samhjálpar létu þau Óli Ágústsson og Ásta Jónsdóttir af störfum. Þess ber að geta að börn þeirra þau Gunnbjörg, Brynjólfur, Ágúst og Kristinn höfðu einnig starfað fyrir Samhjálp og eiga þátt í þeirri uppbyggingu sem átti sér stað á þessum langa tíma.

Árið 2000 tók Guðni Heiðar Guðnason við forstöðu Samhjálpar ásamt konu sinni Sigrúnu Drífu Jónsdóttur. Árið 2011 tók Karl V. Matthíasson við sem framkvæmdastjóri og starfaði til ársins 2014 þegar Vörður Leví Traustason tók við. Eftir starfslok Varðar tók Valdimar Þór Svavarsson við keflinu árið 2019. Edda Jónsdóttir tók svo við starfi framkvæmdastjóra Samhjálpar árið 2022 þar til Valdimar Þór kom aftur til starfa sem framkvæmdastjóri í byrjun árs 2024. 

bottom of page