top of page

Hvað þarf til að geta orðið edrú?

Tóku viðtöl við 50 mannsHvernig lögðuð þið svo rannsóknina upp? „Við ákváðum að fara og spyrja þá sem höfðu orðið edrú hvernig þeir hefðu farið að því og hvað þeir hefðu orðið að gera til að ná að verða edrú. Við töluðum við fólk sem hafði verið edrú í fimm ár eða meira til þess að vera viss um að þarna væri um varanlegan árangur að ræða. Síðan tókum við upp svörin og þetta urðu fimmtíu viðtöl. Það tók okkur rúm tvö ár að safna þessum gögnum, auðvitað kom Covid inn í. Næst tókum við saman helstu þemun úr gögnunum og eftir það vann ég þetta eins og hverja aðra rannsókn. Ég fann það sem áður hafði verið rannsakað um þessi mál og skoðaði út frá þemunum. Síðan gerðum við bókina þannig að við létum viðmælendurna mest hafa orðið. Oft er það gert þannig í rannsóknum að rannsakandinn skrifar textann en setur inn einstaka tilvitnanir frá þeim sem talað er við. Við fórum alveg hina leiðina. Við sögðum sem minnst sjálf, kynntum bara efnið og létum síðan viðmælendurna hafa orðið, til þess að það væri alveg ljóst að þarna er verið að tala um reynslu fólksins sjálfs með þess eigin orðum.“

Voru að lýsa sporavinnuMér skilst að niðurstaða ykkar hafi orðið sú að tólf spora kerfið nýttist fólki best til að ná varanlegum árangri og bata? „Já, þessu fólki sem við töluðum við. Ég get alls ekki talað fyrir alla í því sambandi. En viðmælendur okkar höfðu allir farið þá leið. Þegar ég fór að kafa ofan í gögnin og skoða þau áttaði ég mig á því í miðju kafi að þau voru að lýsa sporavinnu, samt var enginn að tala sérstaklega um hana í viðtalinu. En hins vegar var þetta það sem þau komu upp með. Ég uppgötvaði þetta í miðju kafi við að greina að svörin eru bara sporin. Þá fór ég að greina gögnin fyrst og fremst út frá þeim.“ Hver er þá að þínu mati ástæða þess að tólf spora kerfið er svona áhrifaríkt og virkar fyrir þetta marga? „Ég hef ekki svar við því en tólf spora kerfið tekur á öllum helstu þáttunum sem plaga fólk sem þjáist af alkóhólisma. Fyrsta skrefið er að átta sig á því að þær leiðir sem maður hefur farið í neyslunni eru ónýtar og maður þarf að leggja þær alveg til hliðar og taka upp alveg nýja nálgun. Þeim sem ekki tekst þetta tekst ekki að verða edrú. Margir halda að tólf spora kerfið sé einhvers konar trúarbragðasamfélag en það kemur fram í þessum gögnum að þannig er það ekki. En allir þeir sem höfðu orðið edrú höfðu fundið eitthvað sem þeir töldu sinn æðri mátt. Sumir voru alveg ánægðir með þann æðri mátt sem er almennt viðurkenndur slíkur í samfélaginu en aðrir ekki. Um það bil helmingur fór aðrar leiðir. En allir fóru einhverja leið. Margir sögðu „AA-samtökin eru minn æðri máttur“ eða „deildin mín er minn æðri máttur“. „Þessu fólki hefur tekist það sem mér hefur ekki tekist, það getur því meira en ég og mun styðja mig ef ég þarf á að halda.“ Margir sögðu þetta en það voru ótal leiðir sem fólk fór og ótal hugmyndir sem það hafði um hver væri æðri máttur í lífi þess og það var mjög persónulegt. Þannig að þeir sem halda að þeir verði neyddir til að trúa á einhvern guð í gegnum tólf spora kerfið geta tekið gleði sína aftur,“ segir Sigurlína glettin. „Þá eru afgreidd fyrstu þrjú skrefin í tólf spora kerfinu. Næsta þema er svo hreinskilni. Þar koma við sögu spor fjögur og fimm. Leyndarmálið sem þú ætlar að taka með þér og engum segja frá, það mun fara með þig í gröfina. Ef þú ert ekki hreinskilinn og segir frá ávirðingum þínum munu þær ná þér og maður verður ekki edrú nema gera þetta. Þú byrjar ekki á því. Þú þarft að ná þér í styrk fyrst.“

Byggir á sammannlegum grunniVið vitum að tólf spora kerfið á upptök sín í Bandaríkjunum, hjá þeim Bill Wilson og Bob Smith, og kemur fyrst fram árið 1935 en AA-bókin var fyrst gefin út árið 1939. Nú eru áttatíu og átta ár síðan þetta gerðist. Hefur kerfið þróast eða er það alltaf eins? „Í grunninn er það eins, og sam-mannlegt og þess vegna er það alls staðar eins. Það er ekki bundið við bandaríska menningu. Ef það væri svo hefðu engir orðið edrú nema Bandaríkjamenn. Það er búið að gera á þessu gríðarmiklar rannsóknir og skoða hverjar eru bestu leiðirnar til að veita meðferð við fíknisjúkdómum og svarið er alltaf eitt, áhrifaríkasta leiðin til að ná sér út úr alkóhólisma er sporin tólf. Þetta eru svo afgerandi gögn að enginn getur mælt á móti. Alþjóðleg stofnun í Bretlandi hefur innan sinna vébanda heilbrigðisstarfsfólk úr mörgum geirum, sem stendur saman að því að gera samantekt á öllum þeim rannsóknum sem gerðar hafa verið í heiminum. Þar er allt reiknað saman í einn pott og þá er hægt að finna niðurstöðu sem er meira afgerandi en í minni rannsóknum. Þau spurðu hver væri áhrifaríkasta leiðin og þetta var svarið.“

Comentarios


bottom of page