Undanfarin ár hefur fólk verið hvatt til að sleppa allri áfengisneyslu í janúar undir slagorðinu, Þurr janúar. Það er velþekkt staðreynd að flestir eru meðvitaðri um heilsu sína í janúar en aðra mánuði ársins, tvennt kemur til jólin eru nýliðin með öllum þeim veisluhöldum sem fylgja og áramótin eru mörgum innblástur til að gera breytingar.
Í þurrum janúar stíga fram margir sem hafa valið sér vímuefnalausan lífstíl og fjalla um ávinningin. Einn þeirra er Gunnar Hersveinn heimspekingur en hann gaf nýlega út bókina Vending. Þar fjallar hann um hvað þarf til að breyta lífi sínu og skapa sér betri líðan og aukna stjórn á aðstæðum sínum. Gunnar Hersveinn var í viðtali í Reykjavík síðdegis nýlega og þar sagði hann frá því hvernig hann hafði áður prófað að vera vínlaus um nokkurra mánaða skeið en þótt hann fyndi mun á líðan sinni þvarr viljastyrkurinn eftir vissan tíma. Svo kom að þeim tímapunkti að hann ákvað að láta vín algjörlega vera og hóf í kjölfarið að skrifa til að styrkja röddina sem sagði honum að standi við ákvörðunina fremur en láta letjandi raddir hafa áhrif á sig.
Hann og dr. Erla Björnsdóttir sálfræðingur verða með fyrirlestra og gangast fyrir umræðum í heimspekikaffi í Saga Story House á miðvikudaginn 31. janúar kl. 20 í Flatahrauni 3,, Hafnarfirði. Aðgangur er ókeypis og heimspekikaffið er öllum opið.
Margir vilja taka áfengisneyslu sína til skoðunar. Þeim finnst þeir drekka of oft og stundum of mikið vegna þess félagslega þrýstings sem myndast við félagslegar aðstæður. Drykkirnir verða kannski fleiri en fólk ætluði sér í byrjun og stundum verða atvik sem fólk þarf að sjá eftir vegna þess að það var undir áhrifum áfengis. Allir hafa gott af því að skoða neysluvenjur sínar og hlutverk áfengis á líf sitt. Áfengi er engin venjuleg neysluvara. Það er í raun eiturefni sem líkaminn þarf langan tíma og mikla fyrirhöfn til að losa sig við. Auk þess er það orsakavaldur ansi margra alvarlegra sjúkdóma. Með því að taka þátt í þurrum janúar og jafnvel teygja tímann út febrúar, þ.e. þreyja þorrann og góuna áfengislaust getur fólk bætt heilsu sína, fengið betri yfirsýn yfir hvernig neyslan hefur áhrif á líf þeirra.
Margir sem kjósa að gefa líkamanum frí frá áfengi lýsa margvíslegum jákvæðum áhrifum. Svefninn batnar, blóðsykur lækkar, fólk léttist, það finnur fyrir aukinni orku og athafnaþörf og buddan þyngist. Það hefur líka marga kosti í för með sér að venjast því að afþakka áfengi og vera edrú þar sem áfengi er haft um hönd. Það er til í dæminu að sumir hafi ekki upplifað það frá því þeir hófu að smakka vín á unglingsaldri. Rannsóknir sýna einnig að þeir sem sleppa áfengi reglulega um lengri tíma drekka minna þegar þeir kjósa að smakka vín en hinir.
Í janúarmánuði í fyrra og árið þar á undan dróst áfengssala saman, samkvæmt tölum ÁTVR, miðað við meðalsölu eða um 25% árið 2023 og um 23% árið 2022. Þetta bendir til að sífellt fleiri kjósi að prófa áfengislausan lífstíl og taka þátt í þurrum janúar.
Comments