Aukið aðgengi aukin neysla
- steingerdur0
- 6 days ago
- 2 min read

Forvarnastarf fer fram á mörgum sviðum og getur verið allt frá því að setja lög og reglur til þess að tala augliti til auglitis við fólk um hætturnar. Á Íslandi er bannað að selja flest vímuvaldandi efni og ýmsar hömlur eru settar á dreifingu þeirra sem eru leyfð. Undanfarin ár hefur borið á því að nýttar hafi verið margskonar glufur í samþykktum Evrópusambandsins og andvaraleysi yfirvalda til að dreifa áfengi gegnum netið. Þetta er uggvænleg þróun því rannsóknir hafa sýnt að aukið og auðvelt aðgengi leiðir ævinlega til aukinnar neyslu en besta leiðin til að ánetjast ekki vímuefnum er að nota þau aldrei.
Margvíslegir þættir geta haft áhrif á og aukið líkur á að unglingar og ungmenni ánetjist fíkniefnum. Meðal þeirra eru kynferðisleg misnotkun í æsku, að alast upp við vímuefnaneyslu, aga- og eftirlitsleysi, áhrif fjölmiðla og þrýstingur frá jafningjum. Ákveðnir persónuleikaþættir eins og léleg sjálfsmynd, lítil félagsfærni og jákvæð viðhorf til vímuefna eru einnig líklegir til að vera til staðar hjá þeim unglingum sem nota fíkniefni.
Áhættan er mest þegar börn eru að byrja á kynþroskaskeiði. Það er vel þekkt að þetta er umbrotatími í lífi flestra og margir eiga erfitt með að fóta sig hálfir í heimi barnsins og hálfir í heimi hinna fullorðnu, ekki síst ef við bætast álagsþættir á borð við flutninga milli hverfa, skilnað foreldra og skólaskipti eða flutning frá einu skólastigi yfir á annað. Fíkniefnaneysla unglinga eykst til að mynda mjög mikið frá því að þeir eru í efstu bekkjum grunnskóla og þar til þeir ljúka framhaldsskólanámi. Mikilvægt er að foreldrar hafi auga með börnum sínum á álagstímum líkt og þeim þegar þau færa sig milli skólastiga og geri sér grein fyrir að þarna er hætta á ferðum.
Drykkja eykst í framhaldsskólum
Lotudrykkja var algengt vandamál meðal unglinga hér á landi en töluverður árangur hefur náðst í að breyta því. Nú er algengast að ungmenni smakki fyrst áfengi á framhaldsskólaaldri. Ekki er langt síðan íslenskir unglingar voru mjög líklegir til að drekka um helgar og drekka illa. Með samstilltu átaki tókst að snúa þessari þróun við en nú eru vísbendingar um að neysla sé að aukast meðal barna í níunda og tíunda bekk. Áfengisneysla er þekktur áhættuþáttur eða frekar fyrsta skref í átt að frekari vímuefnaneyslu hjá viðkvæmum hópum. Flestir prófa harðari efni í fyrsta sinn undir áhrifum áfengis og algengast er að byrjað sé á fikti. Það er þekkt klisja að enginn setur sér það markmið að verða fíkill. Vímuefni breyta hins vegar starfsemi heilans og það ferli að verða háður vímunni getur tekið mjög skamman tíma. Það fer eftir erfðum, persónuleika og aðstæðum en margir fíklar segjast hafa ánetjast við fyrsta smók, fyrsta sopa, fyrstu inntöku eða hvaða aðferð sem notuð var til að neyta efnisins. Það er einnig margstaðfest með rannsóknum að því fyrr sem neyslan byrjar, því líklegra er að hún leiði til langvarandi og erfiðra fíknisjúkdóma.
Comments