Aukið fjármagn til meðferðarstarfs
- steingerdur0
- 2 days ago
- 1 min read

Það er okkur hjá Samhjálp mikið fagnaðarefni að tilkynna að undirritaðir hafa verið uppfærðir þjónustusamningar heilbrigðisráðuneytisins við Krýsuvík og Hlaðgerðakot fyrir árið 2026. Á báðum stöðum er veitt þjónusta fyrir einstaklinga sem þurfa langtímameðferð vegna vímuefnavanda. Í fjárlögum 2026 er veitt auknu fjármagni til meðferðar vegna fíknivanda í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Það gerir m.a. kleift að efla meðferðina í Krýsuvík og Hlaðgerðarkoti. Samanlegt fjármagn til þeirra verður rúmar 550 m.kr. á þessu ári sem er nærri 20% aukning frá síðasta ári.
Á vef stjórnarráðsins er að finna frétttilkynningu frá Heilbrigðisráðuneytinu og þar segir: „Heilbrigðisráðuneytið hefur lagt áherslu á að báðar meðferðarstofnanirnar öðlist staðfestingu embættis landlæknis til reksturs heilbrigðisþjónustu og uppfylli þar með faglegar kröfur í samræmi við ákvæði heilbrigðislöggjafarinnar, líkt og kveðið er á um í reglugerð 786/2007 um eftirlit landlæknis með rekstri heilbrigðisþjónustu og faglegar lágmarkskröfur. Að þessu er stefnt og er það undirstrikað í uppfærðum þjónustusamningum fyrir árið 2026.
„Orðum fylgi gjörðir“
Alma D. Möller heilbrigðisráðherra segir lengi hafa verið ljóst að stórefla þyrfti áfengis- og vímuefnameðferð hér á landi og hún hafi gert það að forgangsverkefni sínu þegar hún tók við embætti heilbrigðisráðherra. „Ég legg áherslu á að orðum fylgi gjörðir og ríkisstjórnin sýndi það í verki með því að veita 350 milljóna króna viðbótarframlag til málaflokksins strax á nýliðnu ári. Við höldum áfram á þessari braut. Með auknu fjármagni á þessu ári og markvissri vinnu við að efla meðferðarúrræði, stytta biðlista og bæta meðferðarstarf náum við árangri, fyrir einstaklinga og fyrir samfélagið allt“. “




Comments