top of page

Ekki lita drykkinn minn bleikan
Áfengisauglýsingar eru bannaðar á Íslandi en menn hafa fundið ýmsar leiðir til að komast framhjá því banni, m.a. með því að auglýsa léttöl á íþróttaleikjum, í sjónvarpi og blöðum. Vínkynningar eru sömuleiðis algengar en þær þjóna sama tilgangi að „normalísera“ eða staðla drykkju.


Myndir af fólki að skála yfir góðum mat eða vínflöskum uppdekkuðu borði gefa til kynna að ekki sé hægt að njóta matarins öðruvísi en með rétta víninu. Að allt bragðist betur sé vel valið rauðvín, hvítvín eða aðrir áfengir drykkir bornir fram með.


Víða erlendis þar sem áfengisauglýsingar eru leyfðar er þetta mikið áhyggjuefni, sérstaklega hvernig auglýsendur einbeita sér að ungu fólki og sýna áfengi sem eðlilegan hluta daglegs lífs þeirra. Ungar konur að skála í kampvíni, saman í spa-ferð, í heita pottinum eða á kaffihúsinu. Á þessum myndum er gefið til kynna að fullkomlega eðlilegt og sjálfsagt sé að drekka hvítvín með hádegismatnum eða skála við vinkonur jafnvel með barnið sitt í kerru eða vagni við hlið sér. Það er jafnvel boðið upp á freyðivín eða hvítvín í barnaboðunum eða svokölluðum Baby Showers. Gæsapartíin eru ekki gjaldgeng eða góð nema allt sé flóandi í víni. Þetta á nú eftir allt saman að vera „síðasta tækifæri“ brúðarinnar eða brúðgumans að sletta úr klaufunum áður en alvara lífsins tekur við.


Emilie Scovill er bandarískur hjónabands- og fjölskylduráðgjafi sem nýlega lýsti því í viðtali við Lisu Keeley hjá vefnum Ria Health, hvernig áfengisframleiðendur hefðu undanfarna áratugi gert konur að sérstökum markhópi og reynt allt hvað þeirra geta að höfða til þeirra í auglýsingaherferðum sínum. Hún hefur um árabil hvatt stjórnvöld í heimalandi sínu til að setja skorður og skýrari reglur um hvað má og hvað ekki í auglýsingum af þessu tagi. Hún ásamt nokkrum kollegum sínum stendur fyrir herferðinni: #DontPinkMyDrink. Þar biðja þau konur að senda inn dæmi um auglýsingar þar sem drykkja kvenna er sýnd sem lúxus, glamúr, vináttu hvetjandi, valdeflandi og ánægjuleg. Tilgangurinn er að safna gögnum og sýna fram hvaða aðferðir fyrirtækin nota til að ná til þessa nýja markhóps.


Hér á landi er þetta ekki síður áhyggjuefni vegna þess að herferðir sem höfða til ungs fólks fara ekki síst fram á netinu, á samfélagsmiðlum og öðrum síðum sem sóttar eru af ungu fólki. Sérstakt átak gegn unglingadrykkju hér á landi skilað gríðarlega góðum árangri og Íslend hefur oft verið tekið sem dæmi erlendis um hvernig snúa megi og breyta drykkjumenningu vegna þess. Nú bendir allt til þess að drykkja ungmenna sé að aukast að nýju og nýlega voru fluttar fréttir af því að landadrykkja væri að aukast meðal þessa hóps. Það má leiða að því sterkum líkum að normalísering drykkju í kvikmyndum, sjónvarpsþáttum og á netmiðlum er höfða til unglinga og ungmenna sé ein af ástæðum þess að þau kjósa að byrja að drekka.

Comments


bottom of page