Með kveðju og þökk til Bjarna Geirs Alfreðssonar
- steingerdur0
- 2 days ago
- 2 min read

Bjarni Geir Alfreðsson matreiðslumaður lést þann 27. október síðastliðinn. Hann var einn þeirra er unnu ómetanlegt starf á Kaffistofunni og starfsfólk Samhjálpar minnist hans með mikilli hlýju. Bjarni var 74 ára fæddur í Reykjavík þann 30. maí árið 1951. Hann lauk prófi sem matreiðslumeistari frá veitingastaðnum Óðali við Austurvöll árið 1972 og vann við fagið upp frá því.
Bjarni var frumkvöðull á sínu sviði og ákaflega hugmyndaríkur í öllum rekstri enda fékk hann viðurnefnið snæðingur. Hann starfaði m.a. á Naustinu, Skrínunni á Skólavörðustíg Aski, Fljótt og Gott á BSÍ og var þar þekktastur fyrir að bjóða upp á „kjamma og kók“. Hann stofnaði einnig eigin veitingastaði, Grillborg, Versali í Kópvogi, Rauða sófann á Hlemmi og Árnesti í Ármúla. Bjarni var auk þess ávallt boðinn og búinn að leggja hönd á plóg á Kaffistofu Samhjálpar og lagði sig fram um að sýna gestum þar vinsemd og hlýju. Honum var umfram um að skapa hlýlegt umhverfi og bjóða upp á góðan og hollan íslenskan mat. Hann lýsti starfi sínu þar sem köllun og vildi að það endurspeglaði trú hans á virðingu, umhyggju og reisn allra manna.Bjarni var þekktur var fyrir vinnusemi og dugnað og tókst meðal annars að byggja upp blómlegan rekstur í erfiðu rekstrarumhverfi veitingastaða á Íslandi. Hann var frábær fagmaður og hafði mikla ástríðu fyrir matargerð.
Bjarni var tvígiftur. Fyrri kona hans var Jenný Árnadóttir og þau áttu saman dótturina Katrínu og síðari kona hans var, Herdís Björnsdóttir og þau eignuðust dótturina Bjarneyju. Báðar eiginkonur Bjarna tóku þátt í veitingarekstri hans á hverjum tíma. Börn Herdísar af fyrra hjónabandi eru Rakel og Björn.
Við hjá Samhjálp þökkum Bjarna innilega fyrir framlag hans til Kaffistofunnar og fyrir þá einstöku elju og hlýju sem hann sýndi í starfi sínu fyrir Samhjálp. Guð blessi minningu Bjarna Geirs Alfreðssonar.




Comments