top of page

Drög að stefnu í áfengis- og vímuvarnarmálum kynnt


Lengi hefur verið kallað eftir heildrænni stefnu í áfengis- og vímuvarnarmálum hér á landi. Fyrir helgi bárust þau gleðilegu tíðindi frá stjórnarráðinu að starfshópur heilbrigðisráðherra hefði skilað drögum að slíkri stefnu og þau væru nú opin til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda. Við hjá Samhjálp hvetjum þá sem hafa áhuga á þessum málum til að kynna sér drögin og senda inn umsögn. Í fréttatilkynningu stjórnvalda segir:


Heilbrigðisráðuneytið hefur birt til umsagnar drög að stefnu í áfengis- og vímuvarnarmálum til ársins 2035. Stefnudrögin eru unnin af starfshópi heilbrigðisráðherra sem skilaði ráðherra skýrslu sinni fyrir skömmu. Umsagnarfrestur er til 11. febrúar næstkomandi.


Markmið stefnunnar er að efla lýðheilsu og öryggi í samfélaginu með því að draga úr skaðlegum áhrifum áfengis- og vímuefnanotkunar og tryggja öllum aðgengi að gagnreyndum forvörnum, meðferð, endurhæfingu og skaðaminnkandi þjónustu. Við vinnu sína við mótun stefnunnar byggði starfshópurinn á víðtæku stöðumati á stöðu málaflokksins hér á landi, samráði við helstu hagsmunaaðila og alþjóðlegum viðmiðum og leiðbeiningum, meðal annars frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni.

Skýrslan er lögð fram til samráðs í Samráðsgátt stjórnvalda til að gefa almenningi og hagsmunaaðilum kost á að koma á framfæri sjónarmiðum áður en endanleg stefna verður mótuð ásamt áætlun um framkvæmd hennar til næstu ára.

Comments


bottom of page