top of page

„Frábært að geta látið gott af sér leiða“


ree

María Svanhildur Pétursdóttir er í hópi þeirra sem hlaupa í Reykjavíkurmaraþoninu í ár. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem hún tekur þátt í hlaupinu og ekki í fyrsta sinn sem hún ákveður að styrkja Samhjálp með þessum hætti. María Svanhildur er sjötug en nýfarin að hlaupa aftur eftir að hafa hvílt sig á utandyrahlaupum um tíma.


Hvers vegna ákvaðst þú að hlaupa til styrktar Samhjálp í Reykjavíkurmaraþoninu?

„Vegna þess að Samhjálp er að hjálpa þeim sem minna mega sín, og er að benda fólki á að Jesús er frelsarinn. Ég þekki líka fullt af fólki sem hefur náð tökum á lífi sínu með dvöl sinni í Hlaðgerðarkoti,“ segir hún.  


Hefur þú æft hlaup lengi? „ Nei ég hef ekkert hlaupið að viti í nokkur ár, en tek þessu alvarlega og er að æfa mig. Þetta er heilmikið átak.“


Hvað ætlar þú að hlaupa langt? „Ég ætla hleyp 10 km.“


Það er sannarlega metnaðarfullt markmið en hvað, að þínu mati, er helsti hvatinn til að fólk ákveði að hlaupa og leitast við að afla fjár fyrir góðgerðarsamtök?


„Það er fullt af fólki sem æfir hlaup bæði eitt og í hópum. Ég hljóp alltaf ein og Reykjavíkur marathonið var svona mín árshátíð. Það er mjög mikil stemning í hlaupinu sem hvetur fólk áfram, og frábært að geta látið gott af sér leiða.“


Flestir hlauparanna setja sér markmið um hversu hárri upphæð þeir ætla að safna. Hefur þú sett þér slíkt markmið og hvernig gengur að ná þeirri upphæð?


„Ég setti mér það markmið að safna 300.000 kr. Og af því að ég þekki svo mikið af gjafmildu fólki er staðan núna kr. 200.000 kr. Mig langar til að ná markmiðinu mínu og þakka þeim af öllu mínu hjarta sem heita á mig og hvetja mig áfram,“ segir hún að lokum en við minnum fólk á að fátt hvetur hlauparana meira til dáða en einmitt það að sjá markmiðið nálgast. Hægt er að fara inn á síðuna hlaupastyrkur.is og styrkja Maríu Svanhildi og alla þá sem í sumar ætla að láta gott af sér leiða með því að fara út á götur borgarinnar og hlaupa.

 

Comments


bottom of page