Listin að leiða - hógværð og stöðugleiki hins sanna leiðtoga
- steingerdur0
- 5 days ago
- 5 min read

Nýlega var haldin ráðstefna hér á landi um þjónandi forystu og þann ávinning sem hafa má af að tileinka sér þá hugmyndafræði sem hún byggir á. Flestir Íslendingar muna að Georg Bjarnfreðarson var sjálfskipaður stjórnandi bensínstöðvarinnar í Næturvaktarþáttunum og stjórnunarhættir hans, stjórnunartilburðir, voru vægast sagt heimskulegir. Engu að síður voru könnuðust margir þar við ýmislegt úr eigin reynslu af stjórnendum á ýmsum stöðum. Undanfarin hefur ný tegund leiðtoga komið fram á sjónarsviðið, hinn þjónandi leiðtogi. Á The Global Leadership Summit í ár kom vel fram hvað einkennir slíka foringja.
Hinn þjónandi leiðtogi leiðir styrkri hendi og með stöðugleika að leiðarljósi. Craig Groeschel, stofnandi Life.Church biður menn að vanmeta ekki gildi leiðinlegu hlutanna, rútínunnar og allra þessara litlu vana sem við komum okkur upp til að halda gangandi góðum lífsháttum. Hann er einn af þeim sem veit að mests árangurs er að vænta þegar tekst að vekja eldmóð og áhuga meðal starfsmanna. En enginn getur haldið uppi góðum anda og innblæstri nema með stöðugleika og þrautseigju og það krefst þess að menn taki á leiðinlegu hlutunum, iðki venjur sem skila árangri.
Hinn þjónandi leiðtogi kemur fram af auðmýkt, hann byggir upp traust meðal samstarfsmanna sinna, setur skýr markmið og segir þeim sannleikann. Hann setur sig ekki á háan hesrt og reynir ekki að greina sig frá hópnum. Hann hlustar á hugmyndir undirmanna sinna og lærir af þeim ekkert síður en þeir af honum. En Craig leggur áherslu á að við getum öll verið leiðtogar í eigin lífi, við þurfum ekki að eltast við nýungar eða skapa spennu heldur einungis iðka af þrautseigju það sem vitum að sé rétt.

Arfleifð og áhrif
Þegar það virðist litlu skila kemur boðskapur David Ashcrafts að góðum notum því um leið og við föllum í þá gryfju að bera okkur saman við aðra förum við að efast. Finnast við ekki nóg, hlutirnir ekki gerast nægilega hratt eða við ekki skila því sama og hinir. Árangur er hins vegar ekki alltaf auðmælanlegur. Hann snýst nefnilega ekki um okkur sjálf eða hve hratt okkur skilar að markmiðum okkar heldur hvaða áhrif við höfum á aðra og hvers konar arfleifð við viljum skilja eftir okkur. David Maxwell er gamalreyndur leiðtogi og hefur verið þjónandi prestur og safnaðarleiðtogi um árabil. Hann benti á að hver og einn yrði að finna innra með sér hvers konar arf hann vildi skilja eftir og móta sína markmiðssetningu í samræmi við hana og fylgja henni síðan eftir.
Við lifum í krefjandi umhverfi, samfélagi hraða, aukinnar neyslu, mikillar samkeppni og álags. Í slíku umhverfi er nauðsynlegt að finna jafnvægi milli vinnu og einkalífs, milli áreynslu og hvíldar, samskipta og tíma með sjálfum sér. Þetta er talsverð kúnst Christine Caine þekkir kulnun og þá sorg er fylgir því að missa eldmóðinn. Þrátt fyrir að vita að starf þitt skipti máli að þú værir að vinna að virkilega mikilvægum hlutum. En það er hægt að endurheimta ástríðuna og áhugann fyrir starfinu og markmiðum sínum.
Hugmyndafræði þjónandi forystu er sprottin úr jarðvegi kristninnar trúar og rætur hennar liggja í safnaðarstarfi. Þjónandi forysta (e. servant leadership) er hugmyndafræði samskipta, stjórnunar og forystu. Hún felur í sér mannúð og siðgæði sem birtist í umhyggju fyrir hagsmunum og velferð annarra framar eigin völdum og vegsauka. Hugmyndin byggir á því að góður leiðtogi er fyrst og fremst þjónn. Þjónandi forysta grundvallast á jafningjabrag, samstilltri þátttöku allra er að verkefninu koma og samfélagslegri ábyrgð. Hugmyndafræðin er ólík hugmyndum um stjórnun og forystu sem ríkt hafa undanfarna áratugi. Einnig er lögð mikil áhersla á að leiða saman ólíkt fólk og skapa menningu umburðarlyndis og samstöðu. Stephanie Chung hefur reynslu af slíkri vinnu og þegar hún hörundsdökk kona var fengin til leiða hóp hvítra karlmanna hefði einhver sagt að það væri uppskrift að hræðilegum mistökum en hið andstæða varð raunin. Af hverju? Jú, Stephanie gaf sér tíma til að hlusta og kynnast hverjum og einum undirmanni sínum.

Áhugi á velferð annarra og samfélagsleg ábyrgð
Eiginleikum þjónandi leiðtoga má í stutti máli lýsa sem 1) einlægum áhuga á velferð annarra, 2) sterkri vitund og einbeittum ásetningi til sjálfsþekkingar og 3) skýrri sýn á hugsjón og tilgang starfa. Í fyrirtækjum og stofnunum sem byggja á þjónandi forystu er gerð krafa til allra starfsmanna um að tileinka sér hugarfar þjónandi forystu og að þjálfa aðferðir sem byggja á siðgæði, sjálfsþekkingu og samfélagslegri ábyrgð. Með hugmyndafræðinni fylgir ríkt frelsi hvers starfsmanns og um leið skýr ábyrgð hvers og eins gagnvart samstarfsfólki, viðskiptavinum og rekstri.
Þjónandi leiðtogar hafa skýra mynd af hugsjón og tilgangi starfa sem er undirstaða ábyrgðar og aga sem einkennir þjónandi forystu. Í þjónandi forystu er gerð rík krafa til allra starfsmanna í ljósi tilgangs verkefna og ábyrgðar gagnvart samfélaginu. Þjónandi leiðtogar kunna jafnvægislist umhyggju, aga, sveigjanleika og reglufestu. Reynslan sýnir að þjónandi leiðtogar eru langt frá því að vera jámanneskjur. Þeir hafa afburðahæfileika í samskiptum og kunna þá list að hlusta á hugmyndir án þess endilega að vera alltaf sammála viðkomandi en engu að síður vera tilbúinn að hlusta. Gabriel Salguero lærði þá lexíu snemma. Hann þurfti að koma böndum á hvatvísina og læra að virkilega staldra við í stað þess að ýta hlutunum ávallt áfram leyfa þeim að fara hægt yfir og stundum jafnvel standa í stað.

Hugrekki leiðtogans og einbeitt hlustun skapar samtal og rökræður þar sem leiðtoginn speglar hugmyndirnar í tilgangi verkefna, ábyrgð hvers og eins og í ljósi heildarsýnar. Samtalið og hin heildræna nálgun leiðir til þess að þjónandi forystu fylgir mikill agi sem er meðhöndlaður af umhyggju og mjúku valdi. Þennan aga má kalla ástríkan aga. Aginn í þjónandi forystu er í senn mildur og staðfastur enda fylgir hugmyndafræðinni að leggja rækt við frelsi hvers og eins og þar með ábyrgðina sem fylgir frelsinu var á meðal þess sem komið var inn á í erindi John Acuff en hann varaði einnig við frestunaráráttunni sem við flest erum haldin og því að fara að leyfa sér að slá af kröfum sínum og endurskilgreina markmið sín til að laga þau að eigin metnaðarleysi.
Fyrirtæki sem nota þjónandi forystu í starfsmannamálum, stefnumótum og gæðamálum skila betri afkomu en gengur og gerist og starfsfólki þar líður betur en gengur og gerist. Í þjónandi forystu er litið svo á að stjórnandinn hafi fyrst og fremst hlutverk til að skapa aðstæður og samskipti þar sem kraftar og þekking starfsfólks njóta sín. Þetta sé mikilvægara en vegsauki og frami leiðtogans. Hlutverk stjórandans sé að auka frelsi starfsfólksins eins og kostur er, lyfta starfsfólki upp, gera því kleift að blómstra í starfi og þannig næst árangur sem skilar vellíðan, virkni og framleiðni.




Comments