Vinnustofa um stefnu í áfengis- og vímuefnavörnum
- steingerdur0
- Sep 23
- 2 min read

Nýverið stóð stýrihópur um áfengis- og vímuefnameðferðarkerfið fyrir heilsdags vinnustofu með helstu haghöfum áfengis- og vímuefnameðferðarkerfisins og annarra velferðarkerfa. Alma D. Möller heilbrigðisráðherra skipaði stýrihópinn í mars síðastliðnum og fól honum það hlutverk að efla samskipti og samhæfingu milli þjónustuveitenda og stuðla að tímanlegri þjónustu fyrir notendur. Vinnustofan var haldin sem liður í því verkefni. Samhjálp fagnar þeirri vinnu sem verið er að leggja í að uppfæra stefnu um áfengis- og vímuvarnir.
Markmið vinnustofunnar var að móta aðgerðir í tengslum við nokkur markmið í drögum að uppfærðri stefnu um áfengis- og vímuvarnir. Markmiðin snúa að samhæfingu og samstarfi milli þjónustustiga og þjónustuaðila, auknu aðgengi og fjölbreyttari þjónustu og einnig að nýliðun, menntun og hæfni starfsfólks sem veita þjónustuna.
Góð þátttaka í vinnustofunni
Á vinnustofuna mættu tæplega 50 aðilar frá breiðum hópi eftirtalinna haghafa:
Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, Rótinni, Samhjálp, Félagi íslenskra heimilislækna, embættis landlæknis, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Geð- og bráðaþjónustu Landspítala, Öryrkjabandalagi Íslands, Neyðarlínunni, Samtökum um kvennaathvarf, Batahúsi, Matthildarsamtökunum, Reykjavíkurborg, félags- og húsnæðismálaráðuneytinu, Sjúkratryggingum Íslands, Afstöðu, Það er von, Velferðarsviði Akureyrarbæjar, Rauða krossinum á Íslandi, Læknafélagi Íslands, Félagsráðgjafadeild Háskóla Íslands, SÁÁ, Göngudeild smitsjúkdóma á Landspítala, Einhverfusamtökunum, Andrastöðum, Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu, Hlaðgerðarkoti og Krýsuvík.
Líflegar umræður áttu sér stað meðal þátttakenda sem skiluðu sér í fjölmörgum tillögum að aðgerðum varðandi framangreind markmið, þ.e. um samhæfingu þjónustu, aðgengi, nýliðun og menntun.
Alma D. Möller segir að stöðumat sem gert var á áfengis- og vímuefnakerfinu á liðnu ári sem og fjölmörg samtöl við notendur og aðstandendur þeirra, hafi dregið skýrt fram þörfina á því að efla samskipti og samhæfingu hagsmunaaðila á þessu sviði. Til að mynda sé samstarf milli fagfólks sem starfar innan meðferðarkerfisins að mestu óformlegt. Með því að formgera slíkt samstarf og skilgreina hlutverk og ábyrgð mismunandi hagsmunaaðila og þjónustuveitenda megi bæta skilvirkni þjónustunnar og stuðla að árangursríkari þjónustu: „Góð þátttaka í vinnustofunni og virk þátttaka þeirra fjölmörgu sem sóttu hana tel ég sýna að það er mikill áhugi fyrir breytingum í þessa veru. Ég þakka þátttakendum kærlega fyrir þeirra framlag og er bjartsýn á framhald þessarar vinnu sem stýrihópurinn leiðir“ segir heilbrigðisráðherra. Stýrihópnum er ætlað að skila skýrslu til ráðherra fyrir lok mars á næsta ári.
Comments