Ástríkur lítill bangsi
- steingerdur0
- Oct 2
- 2 min read

Nýlega barst Samhjálp veglegur styrkur frá Styrktarsjóði Ástríks Jónssonar Steindórssonar. Nafnið vakti athygli og okkur lék forvitni á að vita hver væri þessi rausnarlegi og kærleiksríki aðili að baki sjóðsins. Í ljós kom að þar er á ferð nokkuð sérstakur aðstandandi og öðruvísi en við bjuggumst við.
Það er Steindór Ívarsson sem verður fyrir svörum, enda er hann annar feðra Ástríks og sá sem sendi styrkinn fyrir hans hönd. Steindór, hver er Ástríkur Jónsson Steindórsson?
„Ástríkur er lítill kóala bangsi sem ég gaf eiginmanni mínum, Jóni Sigurðssyni, þegar við vorum að kynnast rétt fyrir síðustu aldamót, því ég dvaldi mikið erlendis á þeim tíma,“ segir hann. „Við eigum ekki börn en Ástríkur öðlast smátt og smátt sitt eigið líf og er elskaður og dáður í okkar vinahópi og fjölskyldu. Árið 2012 ákváðum við að hætta að þiggja og gefa afmælis- og jólagjafir. Í stað þess stofnuðum við styrktarsjóðs í nafni Ástríks. Á hverju ári leggjum við inn á styrktarsjóðinn þá fjárhæð sem annars myndi fara í jóla- og afmælisgjafir. Sumir af okkar ættingjum hafa fylgt fordæmi okkar og leggja inn á sjóðinn. Á afmælisdegi Ástríks, 24. september ár hvert tökum við upphæðina út og styrkjum eitthvert gott málefni.“
Hvers vegna valdi Ástríkur Samhjálp að þessu sinni?
„Ástríkur hefur styrkt nokkur góð félagasamtök í gegnum tíðina, eins og Samtök um Kvennaathvarf, ABC barnahjálp og Konukot. Í ár ákvað hann að styrkja m.a. Samhjálp. Við þekkjum vel til þess góða og mikilvæga starfs sem þið sinnið og það er honum mikill heiður að geta styrkt starfið. Takk fyrir ykkar góða og óeigingjarna starf,“ segir Steindór að lokum og sendir okkur bestu kveðjur fyrir hönd Ástríks og Jóns.
Ef aðrir vilja taka þátt í þessu góða starfi og styrkja sjóðinn hans Ástríks geta þeir lagt inn á:
Styrktarsjóður Ástríks Jónssonar Steindórssonar
Kennitala : 590712-0430
Reikningur: 0370 - 22 - 030478





Comments