Þrumukisurnar vilja að góðir hlutir nái að blómstra
- steingerdur0
- Aug 19
- 3 min read

Tara Björk Gunnarsdóttir tilheyrir Þrumukisunum en þeir ofurkettir eru hópur sem ætlar að hlaupa til styrktar Samhjálp í Reykjavíkurmaraþoninu. Þau vinna öll á sama vinnustað og það er því hægur vandi fyrir þau að hvetja hvert annað, gefa góð ráð og deila reynslu. Þau reyna að hlaupa saman einn dag í viku en hafa annars fylgt plani sem þau fengu ChatGTP til að setja upp fyrir sig.
Þið hafið verið ansi dugleg að safna áheitum og markmiðið sem þið settuð ykkur innan seilingar. Hvað heitir hlaupahópurinn ykkar?
„Hlaupahópurinn hét upphaflega Thundercats sem er nafn sem kom frá ChatGPT og við íslenskuðum svo nafnið í kjölfarið,“ segir Tara Björk.
Já, auðvitað kjósa menn að nota ástkæra, ylhýra málið þegar hægt er og Þrumukisur er fínt nafn. Er hópurinn búinn að vera starfandi lengi?
„Nei, hlaupahópurinn sem slíkur var stofnaður í byrjun sumars þegar sú hugmynd kom að skrá okkur í 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu og safna fyrir góðu málefni. Við erum nokkuð lítil deild og erum mjög samheldin og reynum að vera dugleg að gera eitthvað saman utan vinnu og þetta varð hluti af því.“
Það er sannarlega flott leið til að skapa góðan anda á vinnustað að efla hvert annað til að hreyfa sig og rækta heilsuna jafnframt því að hugsa um málefni sem brýnt er að vinna að í samfélaginu. Hvers vegna ákváðuð þið að styrkja Samhjálp í ár?
„Við fórum yfir þau málefni sem hægt er að styrkja, enda val um mörg virkilega góð málefni sem vert er að styrkja,“ segir hún. „Við vorum sammála um að styrkja málefni sem að jafnaði fær kannski ekki eins mikla athygli og mörg önnur og fá e.t.v ekki mikla ríkisstyrki eða styrki annarstaðar frá. Nokkur málefni komu til greina en að lokum ákváðum við að styrkja Samhjálp vegna þess hversu mikilvægt og óeigingjarnt starf er unnið þar.
Það að elda hundruði heitra og næringaríkra máltíða á dag til þess að gefa þeim sem eru í þeirri stöðu að þurfa á því að halda er einstaklega dýrmætt. Svo auðvitað Hlaðgerðarkot og áfangaheimilin og það starf sem unnið er þar sem er gríðarlega mikilvægt fyrir samfélagið okkar. Þörfin á meðferðarúrræðum við fíknivanda virðist hafa aukist undanfarin ár, sér í lagi hjá yngri kynslóðinni og skortur á fjármagni í málaflokknum hefur sýnt sig að getur verið dýrkeyptur og kostað líf. Flest okkar þekkjum einhvern sem glímir við áfengis,- og vímuefnaröskun og þetta málefni ættum við öll að láta okkur varða þannig að já ætli þetta sé ekki kannski langa svarið við því hvers vegna við ákváðum að safna fyrir Samhjálp í ár.“
Það er stór áfangi að hlaupa 10 km og fólk þarf að vera í góðu formi til þess. Hvernig æfið þið?
„Eftir að við ákváðum að taka þátt í hlaupinu þá fengum við ChatGPT til að gera hlaupaplan fyrir byrjendur fyrir okkur enda höfum við í hópnum mjög mismunandi reynslu af hlaupum, þar sem sum höfðu kannski litla sem enga reynslu á meðan aðrir höfðu töluvert meiri reynslu. Við höfum svo verið mis dugleg að fylgja planinu eins og gengur og gerist þar sem sumir eru mjög samviskusamir á meðan aðrir hafa kannski lítið æft eða fylgt plani og svo allt þar á milli. En við reyndum a.m.k. fyrir sumarfrí að taka einn dag í viku þar sem við hlupum saman. Svo erum líka dugleg að peppa hvort annað áfram í gegnum Strava og svoleiðis.“
Hvað gefur það ykkur að leggja góðgerðarfélögum lið með þessu móti?
„Við vinnum öll í deild Atvinnu með stuðningi hjá Vinnumálastofnun þar sem við aðstoðum einstaklinga með skerta starfsgetu, af hverskyns ástæðum, að komast í virkni og út á vinnumarkað. Við vinnum þar af leiðandi með breiðum hópi einstaklinga og vitum að mörg góð úrræði og málefni þarna úti sem aðstoðar einstaklinga að fóta sig í lífinu en skortir fjármagn til þess að geta haldið áfram að þróast og blómstra. Það er þar af leiðandi mikilvægt fyrir okkur að geta lagt eitthvað af mörkum til þess að sýna stuðning,“ segir Tara Björk að lokum. Hana og aðrar Þrumukisur er hægt að styrkja inn á hlaupastyrkur.is og við hvetjum alla til að heita á þau og hvetja þau þannig áfram.
Comments