Nauðsynlegt að uppræta fátækt
- steingerdur0
- 36 minutes ago
- 3 min read

Í jólablaði Samhjálparblaðsins birtist grein eftir Steinunni Þóru Árnadóttur formann EAPN á Íslandi um félagið og Íslandsdeildina. EAPN stendur fyrir European Anti-Poverty network (EAPN). Tilgangur og markmið félagsins er að berjast gegn fátækt og félagslegri einangrun, að hvetja til árangursríkra aðgerða gegn fátækt, að starfa með og kynna opinberlega sjónarmið fólks í fátækt, auk þess að stuðla að opinni umræðu um málefnið og vera talsfólk þeirra sem búa við fátækt. Aðildarfélög EAPN á Íslandi eru hjálparsamtök og hagsmunasamtök sem hafa það sem hluta af markmiðum sínum að vinna að málefnum fólks sem býr við fátækt. Samhjálp er aðili að EAPN á Íslandi.
Meðal þess sem Steinunn Þóra tók saman í greininni voru stuttar sögur fólks sem hafði búið við fátækt. Ein þeirra fer hér á eftir: „Ég var að klára grunnskóla og fyrirhugað var að fara í útskriftarferð. Ég vissi fyllilega að mamma sem var einstæð með okkur þrjú systkinin hefði ekki ráð á að greiða fyrir slíka ferð. En í staðinn fyrir að ræða málin við fullorðinn eða mömmu þá kom ég mér vísvitandi í vandræði í skólanum til að lenda í „straffi" og fá ekki að fara með í ferðina. Við börnin erum nefnilega svo dugleg að spila með og hylma yfir með skömminni sem fylgir fátæktinni.
Eitt lítið dæmi af fjölmörgum, auðvitað sleppti ég bekkjarafmælum, fór aldrei á skíði eða skauta (allt of dýrt) og örsjaldan í bíó – þá oft á tilboðs- eða boðssýningar. Ég hef búið á heimili þar sem ekki var ísskápur og þvottavél til dæmis og þar sem við báðum aldrei um ábót á matinn, það sem var á disknum var það sem var í boði.
Það sorglega við þetta er að ég er á fimmtugsaldri í dag og veit að þetta er ennþá staða fjölmargra barna í okkar ríka landi.“
Hvað er fátækt?
Í greininni var einnig spurt hvað er fátækt og af hverju þarf að ræða fátækt í ríku samfélagi eins og Ísland er svo sannarlega í alþjóðlegum samanburði? Og spurningunni svararð: „Fátækt er yfirgripsmikið hugtak sem byggir ekki einvörðungu á fjárhagslegum þáttum, heldur einnig huglægu mati bæði einstaklinga og samfélagsins í heild á því hvað það er sem til þarft til að hafa eða viðhalda lífsgæðum sem eru ásættanleg í tilteknu samfélagi. “
Einnig var vitnað í íslenskar rannsóknir en tölur frá árinu 2023 eru nýjustu tölur sem tiltækar eru. Þá var hlutfall einstaklinga undir lágtekjumörkum á Íslandi 9%. Í greininni segir: „Það samsvarar um 35 þúsund einstaklingum. Þeir sem eru undir lágtekjumörkum búa á heimilum þar sem ráðstöfunartekjur heimilis eru undir 60% af miðgildi ráðstöfunartekna í landinu, að teknu tilliti til heimilisstærðar. Árið 2023 voru lágtekjumörk 302.000 krónur á mánuði fyrir einstaklingsheimili og 634.000 krónur á mánuði fyrir heimili sem samanstóðu af tveimur fullorðnum og tveimur börnum. Það er því ljóst að það er mun fjölmennari hópur sem býr í raun við fátækt, þó svo að tekjurnar séu yfir hinum skilgreindu lágtekjumörkum.“

Upprætum fátækt!
Steinunn Þóra er þess fullviss að hægt sé að uppræta fátækt og hún segir: „Við í EAPN á Íslandi teljum ekki aðeins að það sé hægt heldur að það sé það beinlínis nauðsynlegt enda eru afleiðingar fátæktar víðtækar og gera fólki erfitt að lifa með reisn. Þannig sýnir rannsókn Vörðu að mun fleira fólk sem býr við lágar heimilistekjur metur bæði andlega og líkamlega heilsu sína slæma en fólk með hærri heimilistekjur. Fólk með lágar heimilistekjur getur ekki mætt óvæntum útgjöldum, og allt að helmingur getur ekki veitt börnum sínum eins næringarríkan mat og það myndi kjósa, gefið þeim afmælisgjafir, eða haldið þeim afmælisveislur eða aðrar veislur. Raunar hefur verið bent á að fátækt barna ætti að vera sérstakt viðfangsefni stjórnvalda þar sem fátækt í æsku getur haft áhrif á einstaklinginn út allt lífið.
Ef viljinn er fyrir hendi geta stjórnvöld með markvissum aðgerðum upprætt fátækt eða í það minnsta dregið úr henni. Rannsóknir á fátækt liggja fyrir og nú þarf að grípa til aðgerða til að breyta stöðunni. “
Grein Steinunnar Þóru í heild má lesa hér: https://www.samhjalp.is/_files/ugd/2dbfe3_9eff15ffe94a4503b479e5b1ef6e933b.pdf




Comments